140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

stuðningur við ríkisstjórnina o.fl.

[11:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vil beina því til virðulegs forseta að gerðar verði ráðstafanir svo Alþingi geti í tæka tíð að þessu sinni rækt það hlutverk sitt að veita ríkisstjórninni aðhald þegar kemur að því að gæta hagsmuna Íslands. Við höfum heyrt það hér í dag og raunar í gærkvöldi líka að það er full þörf á því. Upplýsingar um að samningamaður Íslands í viðræðum við Evrópusambandið í makríldeilunni hafi verið tekinn úr því hlutverki, svo ég orði það þannig, eru mikið áhyggjuefni. Það hvarflar varla að nokkrum manni að menn geri slíkt, taki vanan samningamann sem hefur náð góðum árangri, skyndilega úr svo stórum samningaviðræðum án þess að eitthvað búi þar að baki.

Lýsingar hv. þm. Jóns Bjarnasonar á þeim brögðum sem ríkisstjórnin hefur beitt og því hversu langt var gengið til að koma honum úr ríkisstjórn, (Forseti hringir.) ráðherranum sem einmitt hafði staðið í fæturna hvað varðaði deilurnar um makrílinn, hljóta að vera til þess fallnar að valda okkur (Forseti hringir.) enn meiri ugg yfir þessum nýjustu upplýsingum af gangi mála hjá ríkisstjórninni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn enn til að virða tímamörk.)