140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

stuðningur við ríkisstjórnina o.fl.

[11:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ákveðin ögurstund hjá Sjálfstæðisflokknum og áhugavert að fylgjast með því hvernig hann mun haga þingstörfum sínum í dag enda er, eins og allir vita, mikilvægt að ljúka umræðum um þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá í dag til að atkvæðagreiðslan geti farið fram í sumar. Hvað ætlar hann að gera hér fyrir opnum tjöldum í dag? Hyggst hann beita málþófi til að tefja málið fram yfir miðnætti?

Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram breytingartillögur við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og því er ljóst að vilji Sjálfstæðisflokksins er til þess að málið nái fram að ganga þó að hann hafi einhverjar skoðanir á því hvernig það lítur út á endanum. Óska ég Sjálfstæðisflokknum til hamingju með það og það er ánægjulegt (Gripið fram í.) að við getum þá kallað fram vilja þings til þess hvort og með hvaða hætti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram í sumar. Ég óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með þessa afstöðu sína. Það er ljóst að við munum ekki þurfa að sitja hér undir málþófi og að málið frestist fram yfir miðnætti.