140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók málið til meðferðar á tveim fundum í gær. Nokkrar breytingar hafa verið lagðar til í meðförum nefndarinnar í kjölfar fyrri umr. hér í þinginu og athugasemda frá landskjörstjórn. Forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands mætti og fór með nefndinni yfir þær breytingar sem lagðar eru til en stofnunin hefur verið okkur innan handar við gerð spurninganna sem leggja á fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mun ég nú fara yfir helstu breytingar á þingsályktuninni sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Í fyrsta lagi að á kjörseðli verði stuttur skýringartexti á undan spurningum þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvernig stjórnarskránni er breytt og að frumvarp sem lagt er fyrir Alþingi geti tekið breytingum í meðförum þess. Skýringartextinn er svona, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er lögð til breyting á fyrstu spurningunni. Landskjörstjórn fannst spurningin ekki nægilega skýr og gerði sérstaklega athugasemdir við orðin „eftir að tillagan hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.“ Landskjörstjórn taldi hana fela í sér almennan áskilnað um að efni frumvarpsins kunni að verða breytt.

Einnig kom fram í umræðunni hér í fyrradag að ýmsir þingmenn höfðu athugasemdir við orðalagið. Því er gerð tillaga um að spurningunni verði breytt og orðist svo: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? “

Í þriðja lagi er lagt til að svarmöguleikum verði fækkað og að möguleikinn „tek ekki afstöðu“ verði tekinn út. Ýmsir höfðu gagnrýnt þetta og meiri hluti nefndarinnar fellst á að liðurinn sé óþarfur og telur að með því að svara ekki spurningum á kjörseðli, einni eða fleiri, sé í reynd ekki tekin afstaða til þeirra. Hið sama á við ef auðum kjörseðli er skilað. Það bætir því í reynd engu við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar að hafa þennan lið.

Í fjórða lagi er orðunum „sem ekki eru í einkaeigu“ bætt inn í spurninguna um hvort vísa megi náttúruauðlind í þjóðareign. Er spurningin nú á þessa leið: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Þá þarf enginn að velkjast í vafa um það lengur.

Í fimmta lagi er spurningunni sem varðar þjóðkirkjuna breytt. Ég sagði reyndar í framsögu minni við fyrri umr. að það þyrfti að gera. Hún hljóðar nú svo: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Þetta er mjög einfalt, á að nefna þjóðkirkjuna í stjórnarskrá? Sumum og kannski mörgum finnst það mikils virði.

Í sjötta lagi er lagt til að prósentur 10, 15 eða 20 í síðari hluta spurningarinnar um þjóðaratkvæði verði tekið út. Meiri hluti nefndarinnar taldi eftir íhugun og athugasemdir að þessi þáttur gæti verið leiðandi fyrir kjósendur. Hef ég nú lokið við að fara yfir þær breytingar sem lagðar eru til.

Í nefndaráliti er enn ítrekað að kynning í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar þurfi að vera vel vönduð og umfangsmikil. Kjósendur þurfa að hafa átt auðvelt með að kynna sér efnið allt. Ég treysti þeim til að gera það og þá taka þeir upplýsta ákvörðun.

Í nefndaráliti er einnig nefnd sú skoðun meiri hlutans að endanlegt frumvarp Alþingis, að aflokinni síðari samþykkt þess samkvæmt 79. gr. gildandi stjórnarskrár, verði borið undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar og gildistöku. Þetta er til að taka af allan vafa um hug nefndarmanna í þessu efni og til að koma í veg fyrir misskilning, sem kannski er einhvers staðar, um að hin ráðgefandi atkvæðagreiðsla sem nú er rætt um sé „atkvæðagreiðslan“ um nýja stjórnarskrá.

Loks er nauðsynlegt að kjósendur geti greitt atkvæði þannig að vilji þeirra komi skýrlega fram og getið er um það í nefndarálitinu. Fjöldi spurninga er nokkur og kjósendur geta haft ákveðnar skoðanir varðandi einstakar spurningar en ekki aðrar. Það er mikilvægt að atkvæðagreiðslan endurspegli sem allra best vilja kjósenda og því leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að kjósendur geti svarað öllum spurningum, sleppt því að svara einstökum spurningum, skilað auðu eða ógilt svör við einstökum spurningum án þess að seðillinn verði ógildur. Þetta er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, og því er lagt til til að enginn velkist í vafa um þetta þegar kemur á kjörstað að á eftir skýringum í inngangi á kjörseðli komi setningin: Kjósendur geta sleppt því að svara einstökum spurningum. Þar með er útlistun minni á nefndaráliti meiri hlutans lokið.

Ég tel líka rétt að geta þess að beðið var um álit frá innanríkisráðuneytinu á kostnaðarliðum varðandi þessar kosningar og reiknað þá út frá því hvað gæti sparast við það að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Innanríkisráðuneytið treysti sér ekki til að gefa nákvæma tölu en af þeim tölum sem við fengum má ráða að sparnaðurinn við að halda kosningarnar samhliða gæti verið 175 milljónir.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að víkja að aðdáendum ævintýrsins um Mjallhvíti og dvergana sjö. Þeir leggja mikið upp úr vönduðum vinnubrögðum, að lýðræðið eigi að njóta sín og virðingu Alþingis megi ei hraka. Ég er þeim hjartanlega sammála að þessu leyti.

Hins vegar held ég að þeir telji að stjúpan, galdranornin, sé sú í sögunni sem helst eigi að taka sér til fyrirmyndar í ævintýrinu og það finnst mér ekki gott. Í fyrrinótt dró forsprakkinn upp hina eitruðu snældu og taldi sig geta unnið nokkurn tíma í því að koma í veg fyrir lýðræðið, þ.e. að nú í dag næði vilji meiri hluta þingsins fram að ganga og í sumar vilji þjóðarinnar. Það tókst ekki. Nú eru því góð ráð dýr eins og þau voru hjá norninni í ævintýrinu. Nú tel ég að eitraða eplið birtist í því sem akkúrat hefur gerst hér að nú hafa verið lagðar fram margar breytingartillögur, og það er gott, en á hinn bóginn eigi að ganga til atkvæða þegar líður fram á dag eða seint á kvöld. Þar geri menn ítarlega grein fyrir atkvæði sínu þannig að atkvæðagreiðslan dragist fram yfir miðnætti. Þá standa þeir sem ekki skilja ævintýrið upp sigri hrósandi og kenna lélegri verkstjórn að ekki tekst að halda hér þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða (Gripið fram í.) forsetakosningum.

Virðulegi forseti. Það er ekkert óunnið í þessu máli. Málþóf er það og málþóf skal það heita. Hið eitraða epli hefði verið notað hvort heldur við ættum eftir 11, nú sýnast mér það vera 10 dagar eða 10 tímar. Virðingu Alþingis, ef eitthvað er þá eftir af henni, er betur borgið ef þetta varir bara í 10 tíma en ekki 10 daga.

Ég lýsi allri ábyrgð á framgang málsins hér í dag á hendur þeim sem ekki vilja að vilji meiri hluti þings nái fram að ganga og sem ekki vilja að þjóðin fái að lýsa hug sínum til tillagna stjórnlagaráðsins samhliða forsetakosningum í sumar. Engum öðrum en þeim verður um að kenna.