140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum bara tala íslensku hér, það er á ábyrgð stjórnarmeirihlutans að hafa komið breytingum á stjórnarskrá í fullkominn ágreining alveg frá vorinu 2009. Það er ekki hægt að varpa þeirri ábyrgð yfir á nokkurn annan flokk.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því, af því að meiri hlutinn kýs að blanda þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og skoðanakönnun við forsetakosningarnar og nú liggur það fyrir að núverandi forseti Íslands hefur miklar skoðanir á þessu máli og hann mun ræða það í aðdraganda þeirra kosninga: Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér hvaða afleiðingar það hefði ef núverandi forseti næði endurkjöri og synjaði þessum stjórnarskipunarlögum staðfestingar í fyllingu tímans?