140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á tímabili hélt ég að ég væri komin í sögustund í leikskóla undir framsöguræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Hér fer hún einnig fram með ógeðfelldar hótanir um að ef þingmenn samþykki ekki þessa þingsályktunartillögu fyrir klukkan 12 á miðnætti í kvöld sé málið ónýtt. Og hún ætlar sér að kenna stjórnarandstöðunni um það.

Virðulegur þingmaður Valgerður Bjarnadóttir veit jafn vel og ég að í þinginu er frumvarp frá þeirri sem hér stendur sem kveður á um að styttra tímamark sé gefið í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur en þessir þrír mánuðir. Ef umræðan dregst fram yfir miðnætti tekur ríkisstjórnin að sjálfsögðu upp frumvarp mitt og leggur það hér fram til að hægt sé að koma þessum kosningum fyrir samhliða forsetakosningum.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hefur það verið rætt innan meiri hlutans hvað verður gert við skýrslu stjórnlagaráðs þegar þjóðin (Forseti hringir.) fellir það í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún verði notuð sem gagn í vinnu þingsins?