140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að bera það undir formann stjórnskipunarnefndar hvort það sé ekki rétt hjá mér að allir fræðimenn á sviði stjórnmálafræði og stjórnskipunarréttar hafi verið þeirrar skoðunar, allir þeir sem leitað var til, að tillögur stjórnlagaráðs væru verulega vanbúnar sem grunnur að nýrri stjórnarskrá. Er þetta ekki rétt hjá mér? Í þessu ljósi, sé það þannig, vil ég bera það undir formann nefndarinnar hvort hún telji rétt að mæla með því við þjóðina að tillögur sem eru þetta vanbúnar að mati fræðimanna verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Mun hún mæla með því? Telur hún rétt að nota tillögur stjórnlagaráðsins sem grunn að nýrri stjórnarskrá?

Þetta hefur ekki komið fram. Það hefur heldur ekki komið fram hvort það sé meiri hluti fyrir því í stjórnskipunarnefndinni á Alþingi að nota þetta sem grunn fyrir nýja stjórnarskrá. Hins vegar hefur verið valin sú leið að vinna ekki með neitt annað. Það hefur verið látið alveg (Forseti hringir.) undir höfuð leggjast (Gripið fram í: Rétt.) að nota stjórnarskrána sjálfa og skoða breytingar á henni í þessu samhengi.