140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir margt í andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur en verð þó að hryggja hana með því að ég get ekki svarað þeirri spurningu sem hún endaði á. Ég held að ekkert okkar geti svarað því nákvæmlega á þessari stundu hvernig úrslitin verða, verði á annað borð efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Ég held að ekkert okkar geti spáð fyrir um það. Ég held að enn síður getum við spáð um hvernig niðurstaðan, jákvæð eða neikvæð, verður túlkuð í framhaldinu. Við getum þess einmitt í nefndaráliti okkar að orðalag spurninga gefi vissulega töluvert mikið svigrúm. Til dæmis bara stóra málið, það að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar, hefur afskaplega lítið forsagnargildi um það hvernig einstakar tillögur og einstök ákvæði munu líta út þegar frumvarp verður lagt fram eins og boðað hefur verið.