140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans. Það var eitt sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann út í. Nú virðist vera að ríkisstjórnin fylgi ekki þjóðarvilja í mörgum málum. Eitt af þeim málum er Evrópusambandsumsóknin en við sjáum að mikill meiri hluti þjóðarinnar er mjög óánægður með þá vegferð sem ríkisstjórnin er á. Í morgun sýndi nýleg könnun að Samtök iðnaðarins, og þeir sem starfa innan þeirra, eru nú komin í þann hóp sem sýnir mjög sterka andstöðu.

Það liggur fyrir breytingartillaga á þskj. 1028 þar sem gert er ráð fyrir því að samhliða þessari kosningu verði þjóðin spurð að því hvort hún vilji draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji eitthvað því til fyrirstöðu að spyrja þeirrar spurningar samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu og hver afstaða hv. þingmanns er til þeirrar breytingartillögu.