140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef samúð með því sjónarmiði sem fram kemur í tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um Evrópusambandsaðildina. Ég er henni sammála um að rík ástæða sé til að spyrja um þetta mál á þessum tímapunkti. Ég hef velt því fyrir mér hvort hugsanlega hefði mátt orða hana öðruvísi til þess að hún félli betur sem breytingartillaga að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. En aðild að Evrópusambandinu er engu að síður stjórnarskrármál þegar við gerum okkur grein fyrir því að aðild að Evrópusambandinu er óhugsandi að núverandi stjórnarskrá. Það er því ekki þannig, eins og látið hefur verið í veðri vaka hér í umræðum, að hér sé um gersamlega óskyld efni að ræða.