140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Við ræðum hér gríðarlega mikið mál. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir greinargott og skilmerkilegt yfirlit yfir afstöðu 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég hlýddi líka á hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur flytja sitt mál í morgun. Í andsvörum þar kom fram að hv. formaður nefndarinnar gat ekki svarað þeirri spurningu hvort einhver fræðimaður sem kallaður hefði verið fyrir nefndina hefði mælt með því að tillögur stjórnlagaráðs gengju fram óbreyttar. Ég hef nokkuð miklar áhyggjur af því ef við hér á þinginu höfum ekki sama skilning á því sem við erum að vinna með. Ég tek eftir því í þeirri spurningu sem sett er fram í breytingartillögu meiri hlutans að þar á að leggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá tillögu stjórnlagaráðs í fyrri hluta (Forseti hringir.) spurningarinnar.

Ég vil inna hv. þm. Birgi Ármannsson eftir því hver skilningur hans á þessu er og hvort hann geti staðfest það að einhver fræðimaður hafi mælt með þessu eða gefið okkur nánari upplýsingar um störf nefndarinnar.