140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka að ég hef allnokkrar áhyggjur af því hvernig málið kemur út úr nefndinni vegna þess að það er augljóst að nefndarmenn hafa mismunandi skilning á ákveðnum grundvallaratriðum varðandi frekara framhald þessa máls. Það er afleitt að mínu mati þó svo að við kunnum að hafa skiptar skoðanir á innihaldi þeirra tillagna sem liggja fyrir. En grundvallaratriðið þegar við vinnum að svona stóru og viðamiklu máli sem varðar stjórnskipan Íslands hlýtur að vera það að við höfum sameiginlegan skilning á þeim grunnhugtökum sem verið er að vinna með. Mér þykir skorta nokkuð á það.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson að því hvernig í rauninni umræðan eða vinnan í nefndinni var í því efni að skiptast á skoðunum um þessa grundvallarþætti og hvort hann deili þeirri skoðun minni eða hvort hún sé rétt í raun að málið sé komið þannig út úr nefndinni að nefndarmenn hafi ekki sama skilning á ýmsum þáttum þessa máls sem lúta að grundvallarspurningum um meðferð þess.