140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni tengd þeim. Nú er staðan svo hér á landi að við eigum stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og hún rúmast í þessu litla kveri. Að mínu mati eiga stjórnarskrár ríkja að vera stuttar, skorinortar og á skiljanlegu máli. Stjórnarskrá sú sem nú er í gildi hefur verið í gildi um nokkra áratugi og er komin góð dómaframkvæmd á hana. Þeim ákvæðum er snúa að mannréttindum var bætt inn í stjórnarskrána 1995 og hefur þeim álitaefnum sem risu í kjölfar þess að við löggiltum mannréttindasáttmála Evrópu verið svarað í Hæstarétti og eru þá mannréttindi komin hér á lygnan sjó að því leyti hvernig túlka má stjórnarskrána.

Nú ber svo við að áhugamál hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um að umbylta stjórnarskrá Íslands, og ekki nóg með að umbylta stjórnarskránni heldur var farið af stað með að leggja til að henda þeirri gömlu og skrifa nýja, er komið inn í þingið í formi þingsályktunartillögu sem gekk upphaflega út á að spyrja ætti þjóðina hvort hæstv. forsætisráðherra mætti leggja fram frumvarp á Alþingi sem mundi byggja á tillögum stjórnlagaráðs. Heyr á endemi, virðulegi forseti. Þetta gagnrýndi ég um leið og ég sá tillöguna því að í þingkosningum er það svo að þegar þingmaður er kjörinn fær hann fullar heimildir til að leggja fram bæði þingsályktunartillögur og frumvörp á þinginu. En það er eins og hæstv. forsætisráðherra sem er búin að sitja hér lengur en nokkur annar, rúm 30 ár, búin að sitja lengur en leigubílstjóri sem var búinn að vera leigubílstjóri í 25 ár, eins og frægt er orðið, hafi ekki áttað sig á því að hún getur gert þetta óstudd og án þess að fara með það í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún megi leggja fram afurðina sem hið umdeilda stjórnlagaráð skrifaði, þá skýrslu.

Sem betur fer hlustaði meiri hluti nefndarinnar á okkur í minni hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þeirri spurningu var breytt. Það var ekki fyrr en fulltrúar landskjörstjórnar og fagaðilar sem komu fyrir nefndina bentu á að þetta væri ekki alveg nógu faglegt sem upphaflegu spurningunni var breytt. Hún hljóðar þá svo núna, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Svarmöguleikarnir eru:

„Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

Það sem hefur tekið breytingum frá 1. umr. og þar til við ræðum þetta nú er að það er langtum meira afgerandi kveðið á um það hvort fólk vilji fara þessa leið, hvort sú fjárfesting sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, upp á 1 þús. millj. kr. eigi að halda áfram eða ekki. Það er kosturinn við þessa breytingartillögu sem nú liggur fyrir. Ef landsmenn safnast saman um að taka þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem stendur til að halda samhliða forsetakosningum og hafna því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fer allt það fjármagn, öll sú orka og öll sú vinna sem forsætisráðherra hefur sett þetta ferli í út um gluggann.

Mig minnir að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, hafi sagt eða látið hafa eftir sér í fjölmiðlum fyrir örfáum dögum, hvort það var ekki bara í kringum síðustu helgi, að ekki kæmi til greina að henda út um gluggann þeirri vinnu sem þessir aðilar hafa unnið. Þá erum við að tala um ólöglega kjörið stjórnlagaþing sem var breytt í stjórnlagaráð sem er ekki uppspretta frá þjóðinni eins og margir halda. Það var Alþingi sem samþykkti þá aðila inn í stjórnlagaráðið. Við erum að tala um þúsund manna landsfund o.s.frv. Þarna er kveðið skýrt á um hvort þjóðin vill stoppa þetta ferli sem þessir aðilar undir forustu hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, hafa lagt í. Þarna er þetta orðið skýrt og tel ég það til bóta.

Hins vegar vantar enn þá í þessa tillögu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafa að vísu bætt úr með breytingartillögu, þá grundvallarspurningu sem þeir sem á annað borð hafa áhuga á stjórnskipunarmálum sakna kannski: Hefur þú áhuga á að breyta núgildandi stjórnarskrá?

Það er grunnurinn sem við eigum að byggja á en ekki að spyrja hvort það eigi að taka upp þessi drög og gera að nýrri stjórnarskrá.

Eins og ég kom inn á í upphafi hefur stjórnarskráin okkar staðist vel tímans tönn. Stjórnarskrá Íslands olli ekki bankahruninu og stjórnarskrá Íslands varð ekki til þess að hér sköpuðust þau vandræði sem urðu á haustdögum 2008. Það var fyrst og fremst vegna reglna frá Evrópusambandinu sem við þurftum að innleiða í gegnum EES-samninginn og ekki síður þeirra staðreynda að þeir aðilar sem tefldu djarft fóru hvorki að stjórnarskrá Íslands né öðrum lögum.

Hvað hefur ekki birst hér á þessum rúmlega þriggja ára valdatíma þessarar vinstri stjórnar? Jú, ríkisstjórnin hefur ekki farið að tveimur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Þá er ég að vísa í Icesave-samningana, frú forseti. Það var bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla í bæði skiptin vegna þess að forsetinn ákvað að vísa samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem þýðir að kosningarnar urðu um leið bindandi fyrir stjórnvöld. Þau fóru ekki að því. Ríkisstjórnin hefur fengið á sig hæstaréttardóma, m.a. út af því að lögin sem ríkisstjórnin setti stönguðust á við núverandi stjórnarskrá. Ég segi því, frú forseti, af þessu tilefni: Væri ekki rétt að ríkisstjórnin tæki það fyrsta skref að fara sjálf eftir núgildandi stjórnarskrá í stað þess að leggja það til að þessari góðu stjórnarskrá verði hent og einhverjar nýjar tillögur teknar upp á borðið? Það er alveg dæmalaust hvernig komið er fyrir þessu, en við vitum að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, kennir alltaf öðrum um ófarir sínar. Það birtist hér svo sannarlega í fyrirspurnatíma í morgun þegar formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, spurði út í ákveðið málefni þar sem viðkomandi þingmanni, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var svo nóg boðið af ósannindum forsætisráðherra og yfirhylmingu með sjálfri sér að hann sá sig knúinn að bera af sér sakir. Réttara sagt ætlaði hann að bera af sér sakir en fékk að koma sjónarmiðum sínum að til þess að leiðrétta bullið í hæstv. forsætisráðherra og fékk að gera það hér undir liðnum um fundarstjórn.

Þetta mál sem er til umræðu í þinginu í dag er hér vegna þess að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur fundið blóraböggul í stjórnarskrá Íslands og segir að stjórnarskrá Íslands hafi valdið þessu bankahruni. Þetta er ólíðandi.

Ég spáði því fyrr í vetur, eftir áramót, að þessi ríkisstjórn mundi ekki lifa deginum lengur en til 31. mars. Mér sýnist málin vera komin á þann stað að ríkisstjórnin sé komin á endastöð, enda er ekki nóg með að hún sé búin að losa sig við hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, heldur er ríkisstjórnin búin að varpa fyrir borð okkar besta samningamanni í sjávarútvegsmálum þar sem mest er þörf núna að standa í lappirnar gagnvart þessari umsókn að Evrópusambandinu. Við vitum hvers vegna það er. Þessi aðili var samningamaður okkar í hvalveiðimálum. ESB bannar hvalveiðar þannig að það þurfti að losa sig við manninn þess vegna og ekki síst vegna þess að Evrópusambandið ásælist mjög þann afla sem við fáum hér að landi eftir að hin nýja auðlind synti inn í landhelgina okkar. Ég er að sjálfsögðu, frú forseti, að tala um makrílinn.

Það má hafa mörg orð um vinnubrögð í nefndinni. Ég ætla að hlífa landsmönnum við frásögn af þeim vinnubrögðum sem þar hafa verið ástunduð en í stuttu máli má segja að andinn hafi verið sá að ef við í minni hlutanum hlýðum ekki höfum við verra af. Þetta er búið að vera mjög fróðlegt. Núna er þessi tillaga frá stjórnlagaráði búin að vera í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í rúma fimm mánuði og ekkert hefur verið gert með plaggið. Nú leggur ríkisstjórnin til enn einn tafaleikinn, þann að þessar tillögur frá stjórnlagaráði fari í þjóðaratkvæðagreiðslu 30. júní. Ef það verður samþykkt hér í dag að þessar tillögur fari í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum hefur ríkisstjórninni tekist að tefja málið um tæpt ár eftir að stjórnlagaráð skilaði skýrslu til Alþingis.

Hér er talað um að vanda þurfi vinnubrögðin við að setja nýja stjórnarskrá eða breyta henni. Hvers vegna í ósköpunum tók þá ekki hæstv. forseti þingsins við þessum tillögum stjórnlagaráðs? Stjórnlagaráð var á ábyrgð Alþingis samkvæmt lögum. Þegar Hæstiréttur var búinn að ógilda kosninguna til stjórnlagaþings gekk hæstv. forsætisráðherra samt fram og lét kjósa til stjórnlagaráðs þá einstaklinga sem voru kosnir í ógildri kosningu. Hvers vegna í ósköpunum var málið ekki tekið inn í þingið þá? Af hverju fór ekki hæstv. forsætisráðherra fram með málið þá strax sem stjórnarskipunarfrumvarp? Hvers vegna í ósköpunum? Hvers vegna var málinu sturtað inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bara til umsagnar og til að fá til sín gesti? Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nánast ekki komið að nokkru öðru máli í vetur, en það er ekki til þess að vinna faglega með breytingar á stjórnarskránni. Nei, það var gert til þess að fá gesti á fundi nefndarinnar til að segja álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs.

Ég fer yfir það í nefndaráliti mínu að þegar ég var að skrifa það hér seint í gærkvöldi mundi ég ekki eftir neinum sérfræðingi sem kom fyrir nefndina og lauk heildstætt lofsorði á tillögur stjórnlagaráðs og taldi þær góðar. Það komu sérfræðingar fyrir nefndina sem voru stjórnlagaráði til ráðgjafar. Stjórnlagaráð fékk nefnilega fræðinga til sín og hafði heimildir til að kalla til sín hvern þann sem það vildi til að hjálpa við að gera heildstætt plagg. Meira að segja þessir sérfræðingar komu fyrir nefndina og sögðu: Við erum bara rasandi bit. Við gerðum ákveðnar tillögur á faglegum grunni út frá lögfræðiþekkingu okkar en þær hafa ekki skilað sér inn í skýrslu stjórnlagaráðs.

Svo er viðkvæðið hjá meiri hlutanum: Við látum enga lögfræðielítu stjórna okkur. Það verður sko engin lögfræðielíta sem skrifar nýja stjórnarskrá.

Samt er verið að fást við æðstu lög landsins. Það er alveg greinilegt á hvaða leið þessi vinstri stjórn er. Það á að umbylta á allan hátt því góða samfélagi sem við búum í. Það á greinilega að afmá öll þau góðu verk sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komu til leiðar í íslensku samfélagi á mesta framfaratímabili í sögu þjóðarinnar. Það hafa vinstri menn aldrei þolað. Hér er stjórnarskrármálið og fiskveiðistjórnarkerfið rætt á nóttunni. Þetta er ekki boðlegt, frú forseti.

Svo fer formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, í morgun með evrópskar barnasögur fyrir þingheim, steytir hnefann og segir að ef þingmenn stjórnarandstöðunnar muni ekki lúta þeim vilja meiri hluta þingsins hér í dag að samþykkja málið fyrir kvöldið svo það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu skulum við hafa verra af.

Virðulegi forseti. Ég læt ekki annan þingmann beita mig eins miklum hótunum og fólust í þessum orðum, enda fór ég í andsvar við þennan ágæta þingmann og benti henni á að það væri engin hætta á ferðum. Ég hef sjálf lagt fram frumvarp í tvígang um að rýmka mætti þetta þriggja mánaða mark um að senda mál í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Af því að það frumvarp kom frá þeim þingmanni sem heldur nú þessa ræðu læðist að mér sá grunur að ríkisstjórnin hafi ekki geð í sér til að koma því á dagskrá, ekki einu sinni til að bjarga eigin málum. Ríkisstjórnin málar sig alltaf út í horn. Þetta starf er eins og tafl og þessi ríkisstjórn lendir alltaf í þrátefli. Það er alveg einkennilegt hvernig að þessum málum er staðið.

Svo er kvartað yfir því að við í stjórnarandstöðunni reynum að stoppa þetta mál en við erum búin að hafa allan veturinn til að fara yfir það. Það hafa komið sérfræðingar fyrir nefndina og hreinlega beðið um að þingið taki málið til sín, sérfræðingar sem hafa sagt: Ekki fara með málið í þetta ferli. Það tefur bara málið. Hverju ætlið þið að ná fram með þessari atkvæðagreiðslu?

Það skiptir ekki nokkru einasta máli hver kemur fyrir nefndina eða hvað hann segir, það er búið að taka ákvörðun um þetta og svona skal þetta vera. Og við vitum hver stjórnar hér, við vitum hver stjórnar framkvæmdarvaldinu. Þetta er ekki fyrsta málið sem hæstv. forsætisráðherra keyrir áfram í blindni á sinni margrómuðu og umtöluðu þrjósku.

Þá ætla ég aðeins að fara yfir þær breytingartillögur sem ég hef lagt til við þessa þingsályktunartillögu.

Úr því að meiri hlutinn og ríkisstjórnin ætla að boða til hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum hef ég að sjálfsögðu lagt fram breytingartillögu í þá átt að þjóðin fái í fyrsta sinn að koma að því að segja álit sitt á ESB-málinu.

Sumarið 2009 voru í þinginu greidd atkvæði um það hvort senda ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu þá tillögu að þjóðin sækti um aðild að Evrópusambandinu. Ég birti úrslit þeirrar atkvæðagreiðslu sem fylgiskjal á bls. 3 í nefndarálitinu en tillagan sjálf er í fótnótu á bls. 2. Flutningsmenn hennar voru hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þegar þessi tillaga kom inn í þingið fór atkvæðagreiðslan á þann veg að 32 þingmenn sögðu nei, þjóðin á ekki að fá að koma að því að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi inn umsókn að Evrópusambandinu, 30 þingmenn sögðu já, að þjóðin ætti að fá að koma að því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ætti að leggja inn umsókn, og einn þingmaður sat hjá.

Það munaði því einungis tveimur atkvæðum, einu ef við teljum með þann sem greiddi ekki atkvæði. Enginn þingmaður var fjarverandi. Þarna kom í ljós hversu tæpur meiri hlutinn fyrir aðild að Evrópusambandsumsókninni var, enda hefur komið í ljós seinna í ræðu og riti þingmanna Vinstri grænna að þessi meiri hluti var knúinn fram með ofbeldi og hótunum. Það hefur komið fram í ræðu hjá þingmanni Vinstri grænna sem yfirgaf þann söfnuð að hæstv. forsætisráðherra hafi gengið um húsið með hnefann á lofti og hótað þingmönnum því að ef þeir hlýddu henni ekki í þessu máli mundi fyrsta tæra vinstri stjórnin springa. Mikið hefði það verið gott forsjóninni að þessir þingmenn hefðu staðið á sannfæringu sinni á þessum tíma, þá væri kannski öðruvísi umhorfs hér á landi. Það eru að verða liðin þrjú ár síðan þessar hótanir gengu yfir um stjórnarslit hjá vinstri flokkunum. Hefði ríkisstjórnin sprungið þá hefði verið hægt að koma atvinnulífinu af stað og bjarga heimilunum, en eins og allir vita hefur verið status quo í þessu máli, ekkert hefur gerst síðan þá. Öll orka, peningar og mannafli fer í þessa Evrópusambandsumsókn og meira að segja er það besta það að Vinstri grænir voru eini flokkurinn í síðustu kosningum sem var á móti ESB-aðild. Flokkurinn tók til sín mikinn hluta kjósenda í landinu öllu sem vildu ekki ganga í Evrópusambandið. Þegar upp var staðið var búið að semja um það á milli nokkurra aðila innan Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að Evrópusambandsmálinu yrði hleypt af stað. Það var gjald þess fyrir hæstv. núverandi efnahags- og skattaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, til að fá að halda stólnum sínum áfram eftir kosningar. Allt þetta mál er ömurlegt og þessum flokkum til mikils vansa.

Ég hef lagt fram breytingartillögu ef það verður atkvæðagreiðsla um þetta mál í dag. Með leyfi forseta hljóðar hún svo:

„Við 3. efnismálsgrein bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Vilt þú að stjórnvöld dragi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka?“

Svarmöguleikarnir eru já og nei.

Þetta er afar skýrt. Það gladdi mig alveg einstaklega að þetta málefni skyldi vera á dagskrá í dag því að Samtök iðnaðarins voru með fund í morgun þar sem þau kynntu nýja könnum um viðhorf iðnaðarins í landinu til Evrópusambandsins. Það er skemmst frá því að segja að 69% fyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins segjast vera á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu eða sennilega á móti aðild. Veruleg andstaða er líka við það að Ísland taki upp evru.

Þetta eru miklar fréttir. Samtök iðnaðarins eru komin í svo mikla andstöðu við þetta Evrópusambandsferli. Við skulum átta okkur á því hvaða samtök þetta eru. Þetta eru Samtök iðnaðarins sem hafa barist með kjafti og klóm undanfarinn áratug fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru. Samtök iðnaðarins hafa notað mikla orku samtakanna í að reyna að sannfæra félagsmenn sína um að iðnaðinum væri betur borgið innan Evrópusambandsins. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að opna augun fyrir þessu? Eftir að þessi könnun kom út í morgun er þess vegna enn brýnna að breytingartillaga mín um það hvort stjórnvöld eigi að draga aðildarumsókn til baka eða ekki komist inn í tillögurnar og fái að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum og þessum tillögum stjórnlagaráðs.

Könnun Samtaka iðnaðarins staðfestir það sem hefur verið að gerast undanfarna mánuði, að í könnunum hefur andstaða við Evrópusambandið aukist sífellt. Til dæmis var gerð könnun á Bylgjunni í síðustu viku þar sem þessi spurning mín var lögð fyrir hlustendur. 68% vildu ekki Evrópusambandsaðild og óskuðu eftir því að stjórnvöld drægju umsóknina til baka. Það er tímabært að ríkisstjórnin horfist í augu við staðreyndir. Það er tímabært að þessi ríkisstjórn sem hefur lítið traust hjá þjóðinni fari nú að fara að þjóðarvilja. Það er nefnilega, frú forseti, annar meiri hluti á Alþingi en hér fyrir utan þetta góða steinhús sem kúrir við Austurvöll. Það er hins vegar ekki viðurkennt.

Til að sú breytingartillaga sem ég var að fara yfir um það hvort stjórnvöld eigi að draga aðildarumsóknina til baka eða ekki komist að hef ég þurft að leggja fram aðra breytingartillögu til að þetta samrýmist texta þess þingskjals sem atkvæði verða greidd um. Ég er hér með tvær breytingartillögur í viðbót sem ég ætla að kynna. Breytingartillagan gengur út á það að sjálf þingsályktunartillagan komi til með að hljóða svona:

„Tillaga til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd …“

Við 1. mgr. bætist líka nýr málsliður, svohljóðandi:

„Einnig skulu greidd atkvæði um það hvort stjórnvöld eigi að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.“

Þá verður þetta heiti þingsályktunartillögunnar sem kemur inn í texta tillöguskjalsins sjálfs sem kemur svo inn á kjörseðil þannig að ekki fari á milli mála um hvað er verið að greiða atkvæði.

Hér liggja fyrir þrjár nánast samhljóða breytingartillögur en það er gert til þess að þetta komi fram sem í fyrsta lagi breytingartillaga, í öðru lagi breyting á tillöguheitinu sjálfu og svo inn í þann skýringartexta sem er hér. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið að benda á að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-tillöguna eigi ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Þess vegna verður að koma því að með skýrum hætti að þetta eru tvær aðgreindar tillögur. Fyrr mætti líka vera ef Íslendingar réðu ekki við að kjósa sér forseta, kjósa um aðildina að ESB og kjósa um 6–10 tillögur úr stjórnarskrá. Þau rök eru enn á ný notuð að það verði of flókið að hafa þetta svona.

Ég get alveg fullyrt, frú forseti, að það kemur til með að verða langtum meiri umræða um breytingartillögu mína um það hvort áfram eigi að halda aðildarviðræðum eða ekki en tillögur stjórnlagaráðs. Sú tillaga sem snýr að ESB er á þann veg að hún skiptir okkur öll máli og er mjög heit í umræðunni. Tillögur að breytingu á stjórnarskrá eru ekki eins mikið í umræðunni vegna þess að fólk hér á landi er nú að hugsa um að hafa í sig og á. Margt fólk gengur um atvinnulaust. Margt fólk hefur fjárhagsáhyggjur og því fólki eru ekki stjórnarskrárbreytingar efstar í huga. Hér hefur svo oft verið kallað eftir því að það verði mikil kosningaþátttaka um þessar tillögur. Hinn almenni Íslendingur er ekki að hugsa um hvort hér þurfi að breyta stjórnarskrá með eins afgerandi hætti og ríkisstjórnin leggur til eða ekki. Hinn almenni Íslendingur er fyrst og fremst að hugsa um hvort hann eigi fyrir næstu mánaðamótum. Þessu hefur ríkisstjórnin ekki verið að sinna. Ríkisstjórnin hefur ekki verið að sinna heimilum landsins, skuldamálum fjölskyldna og atvinnuuppbyggingu því að allur kraftur ríkisstjórnarinnar fer í þessa ESB-umsókn sem er vitað fyrir fram að er vitavonlaus, vitatilgangslaus og eyðsla á tíma, peningum og orku. Hér hefur ekkert gerst síðan ríkisstjórnin lagði inn þessa umsókn því að það á að svelta okkur inn í Evrópusambandið. Gleggsta dæmið er þegar hæstv. utanríkisráðherra talar um að Evrópusambandið komi til með að bjarga gjaldeyrishöftunum. Þvílíkt og annað eins. Nú er hæstv. utanríkisráðherra búinn að henda út öllu sem heitir Maastricht-skilyrði og annað. Nú á Evrópusambandið að bjarga íslensku þjóðinni frá gjaldeyrishöftunum. Þetta er lítið dæmi um hvernig hægt er að snúa umræðunni. Íslendingar láta ekki hæstv. utanríkisráðherra blekkja sig. Hann hefur það oft verið staðinn að ósannindum að nú eru allir farnir að sjá í gegnum hann.

Ég hef ekki í þessari umferð tíma til að lesa upp nefndarálit mitt sem fylgir með breytingartillögunum. Ég kem til með að gera það í mínum seinni ræðum því að þetta er það stórt mál að það er algjörlega óútrætt af minni hálfu. Einnig hefur verið bent á það að þessar góðu breytingartillögur sem hafa komið á þingsályktunartillögunni eru algjörlega óræddar líka í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það hefur verið gagnrýnt mjög hvers vegna þær spurningar sem meiri hlutinn leggur til voru valdar en ekki einhverjar aðrar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa gert mikla gangskör í því að leggja hér fram breytingartillögur ásamt þingmönnum utan flokka og þingmönnum Hreyfingarinnar.

Að lokum í minni fyrstu ræðu segi ég að það sem mér finnst einkennilegast í dag er að þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafa vaðið eld og brennistein í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að uppfylla kröfur Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Það er því eftirtektarvert að þegar málið er komið á dagskrá og stendur til að ljúka því í kvöld skuli ekki einn einasti þingmaður Hreyfingarinnar vera á þingi. Hver einasti þingmaður Hreyfingarinnar hefur kallað inn varamann til að afgreiða þetta mál. Það sýnir að hafi verið gerður samningur við Hreyfinguna á sínum tíma um stuðning við ríkisstjórnina er farið að fjara undan (Forseti hringir.) þeim samningi og þá er farið að fjara undan ríkisstjórninni. Það er kannski þess vegna sem hæstv. ráðherrar voru í slíku uppnámi hér í morgun.