140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Nú hefur það ekki farið á milli mála að hv. þingmaður er mikill andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið og hefur lagt fram breytingartillögu í þá veru að þjóðin verði spurð að því hvort haldið skuli áfram með aðildarviðræðurnar.

Vegna þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið um hvað forsetakosningarnar muni snúast um í raun og veru, þá hefur því verið haldið fram í umræðunni að tillaga þingmannsins eigi ekki við í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er nú svo að í tillögum stjórnlagaráðs er verið að ræða fullveldisframsal. Kann ekki að fara svo, hæstv. forseti, að hvað sem meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kann að finnast eða jafnvel meiri hluta þingsins, að forsetakosningarnar geti einmitt snúist um hvort æskilegt sé að vera með fullveldisframsal í stjórnarskrá? Kann það ekki að vera ein af þeim spurningum sem frambjóðendur til forsetakjörs munu fá og velta fyrir sér, og jafnvel líka hvað þeim finnist um að þjóðin sé spurð að því að hætta við aðildarferlið? Ég spyr til að varpa ljósi á að það er ekki í sölum Alþingis eða hjá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ákvarðanir eru teknar um hvað umræðan snýst í aðdraganda forsetakosninga.