140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að að sjálfsögðu er ekki hægt að stýra þeirri þjóðfélagsumræðu sem fer af stað í aðdraganda forsetakosninganna eða hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána vegna þess að það gerist fyrir utan þetta hús. En ég hef bent á og hv. þm. Ólöf Nordal líka, því að við eigum báðar sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þann ágalla sem er til dæmis á þeim tillögum sem valdar voru, af handahófi eftir því sem okkur er sagt, og fara á með í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sagði það eitt kvöldið að í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem leggur fram þessar tillögur væru fjórir samfylkingarmenn, einn frá Hreyfingunni og einn frá Vinstri grænum og að það endurspeglaðist í þeim spurningum sem voru valdar. Þrjár spurningar frá Samfylkingunni um hvort halda eigi áfram með tillögur stjórnlagaráðs, jöfnun atkvæða milli landsbyggðar og höfuðborgar og aukið persónukjör, allt samfylkingarmál. Þjóðkirkjuákvæðið kemur beint frá vinstri grænum og frá Hreyfingunni hugmyndin um hvort þjóðin geti knúið fram atkvæðagreiðslur. Það er ekki verið að taka á þeim stóru málum sem skipta svo miklu máli, sérstaklega í ljósi reynslunnar vegna núverandi forseta Íslands. Það á ekki að spyrja að því hvort við höfum álit á því hvort forsetinn eigi að hafa málskotsrétt. Ekkert er tekið á þeim málum og svo mætti lengi telja. Enda var fátt um svör í nefndinni. Okkur var sagt að þetta hefði verið ákveðið í samráði við stjórnlagaráð á sínum tíma, á fjögurra daga fundi þar sem stjórnlagaráð boðaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til sín eitthvert út í bæ. Ég gaf það út í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þeir sem vildu eiga samtal við nefndina ættu að koma til okkar, þannig að ég var ekki á þessum fundi enda var ráðið náttúrlega ekki til þá samkvæmt lögum því að það hafði skilað inn umboði sínu. En þetta var víst ákveðið í samráði við ráðið, er okkur sagt. (Forseti hringir.) Ég er engu nær.