140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka fyrra svar mitt. Þingmaðurinn hlýtur að skilja að eftir þá gagnrýni og útreið sem ég fékk í þinginu fyrir það að hafa sett færslu inn á facebook-síðu mína 20 mínútum eftir að fulltrúar stjórnlagaráðs voru farnir af fundi nefndarinnar, færslu sem olli þvílíku fjaðrafoki í hænsnabúi ríkisstjórnarinnar, get ég ekki tjáð mig um það sem gerist á nefndarfundum, að sjálfsögðu ekki. Er þingmaðurinn kannski að bíða eftir því annarri sprengju í kringum mig? Hvað er maðurinn að fara? (Gripið fram í.) Hann hlýtur að skilja það sem ég sagði í fyrra svari.

Hann situr ekki í þessari nefnd þannig að þetta verður bara að hanga í lausu lofti en ég var að vísa í hótanir, opinberar hótanir, hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur í morgun um að ef málið kæmist ekki í gegn væri það stjórnarandstöðunni að kenna. Það eru beinar hótanir til okkur um að tala ekki eins mikið í málinu.

Hv. þingmaður vísaði til þess að hér hefði orðið mikil lýðræðisbylting um að breyta stjórnarskránni. Ég vil meina að búsáhaldabyltingin hafi jafnvel ekki verið bylting. Vinstri grænir voru þar mjög áberandi og mjög afgerandi, mótmælaskilti voru geymd inni á skrifstofu Vinstri grænna í Reykjavík sem dæmi. Þingmaður flokksins gekk hér um ganga og átti í samskiptum út á Austurvöll þannig að ég hef oft hugsað með sjálfri mér: Kannski var þetta bara engin bylting, þetta var valdarán, þetta var kannski bara valdarán. Við sáum líka hvað hefur gerst í framhaldinu. Vinstri grænir sitja í ríkisstjórn og fitna á fjósbitanum og svíkja öll sín kosningaloforð.

Það hefur alltaf komið fram hjá mér, svo að ég svari þriðju spurningunni, að ég vil endurskoða stjórnarskrána á skynsamlegan máta. Ég vil endurskoða þá stjórnarskrá sem er í gildi og ég mundi, ef ég hefði fengið að ráða, fyrst og fremst skoða fullveldisafsalsákvæði sem vantar í stjórnarskrána og að náttúruauðlindirnar verði á einhvern hátt tryggðar í stjórnarskrá.