140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er auðvitað ekki hægt að elta ólar við það sem frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kemur (Gripið fram í.) en þegar algerlega er hallað réttu máli og þegar menn leyfa sér að standa í ræðustól Alþingis og fara með hrein ósannindi þá tel ég mig knúna til að gera athugasemd við það.

Athugasemd mín felst í ummælum hennar um margfræga og -rædda fésbókarfærslu. Það er rangt sem hv. þingmaður sagði að hún hafi farið á vefinn 20 mínútum eftir að gestir voru á fundinum. (Gripið fram í.) Hið rétta er að þeir voru inni á fundinum (VigH: Það er ekki rétt.) og það er staðfest í fundargerð nefndarinnar.