140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það tók mig nokkurn tíma að finna þingsköpin en ég hef áður bent á það úr þessum ræðustól af sama tilefni að framganga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur braut í bága við ákvæði 19. gr. þingskapa. Þar segir í seinni hluta 1. mgr., með leyfi forseta:

„Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi …“

Slíkt leyfi lá að sjálfsögðu ekki fyrir.

Ég endurtek: Margumrædd fésbókarfærsla var send út á meðan á fundinum stóð og á meðan gestir sátu enn þá þar inni.

Ég vil líka segja að það er ekki aðeins álit mitt heldur einnig hæstv. forseta Alþingis (Forseti hringir.) og forsætisnefndar að einhverju eða öllu leyti að þetta hafi ekki verið boðleg framkoma.