140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um þetta mál en hann fór mjög vel í gegnum það hvernig þetta ferli er komið út í ákveðið öngstræti og er að vissu leyti hrakfallasaga.

Hv. þingmaður nefndi áhugaleysi þingmanna um málið en nú hefur umræðan staðið nokkurn tíma, bæði fyrri og seinni, og ekki hafa nándar nærri allir þingmenn á Alþingi tekið þátt í henni og hélt ég þó að þetta væri stórmál. Það er stórmál að senda tillögur að stjórnarskrá til atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni, meira að segja stjórnarskrá sem er óunnin. Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á þessu áhugaleysi þingmanna, á því að menn taka ekki þátt? Í fyrri umræðu tóku alls ekki allir þingmenn þátt. Ég tel að það sé nánast skylda þingmanna að gera það, þeir eru í rauninni stjórnarskrárgjafi, og tjá hug sinn til þess hvort þetta sé skynsamlegt ferli eða ekki.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann sem er formaður Framsóknarflokksins, en sá flokkur hefur löngum haft mikinn áhuga á því að breyta stjórnarskránni. Ég man eftir ræðum um það langt aftur í tímann og þingmenn Framsóknarflokksins hafa staðið framarlega í því að breyta stjórnarskránni. Hvað í þessu ferli gerir það að verkum að hv. þingmaður styður ekki að þessar tillögur að stjórnarskrá fari í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni? Hvað er það í þeim sem þingmaðurinn er ekki sáttur við?