140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Það var eitt atriði í máli hans sem ég vildi inna hann nánar eftir. Það tengist því sem fram kom í lok máls hans um undirbúning og hvernig að verki væri staðið. Nú erum við með fyrirkomulag sem gengur í þessu skrefi út á það að ætlunin er að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu skjal sem flestir, skulum við segja, telja að þarfnist breytinga við. Það er sem sagt ætlunin að koma með skjalið á þessu stigi til þjóðarinnar og óska eftir já-i eða nei-i. Ég hef gagnrýnt þetta í ræðum í þinginu og mér heyrist hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vera sömu skoðunar.

Ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um stjórnmál erlendis og fylgist vel með og ég er að velta fyrir mér hvort hann þekki dæmi þess að efnt sé til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur sem eru einhvern veginn í miðju vinnsluferli og ekki fullkláraðar.