140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:12]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spurningarnar voru ekki bara spurningar heldur líka álit hv. þingmanns, en ég reyni að svara um þetta ferli almennt. Ég verð að segja að ég er hlynntur því, ég tel það ekki andstætt neinum þeim hugsjónum eða hugmyndum sem ég hef. Að tala við þjóðina? Já, hvernig tölum við við þjóðina? Við reynum að spyrja hana, við reynum að gera það eftir upplýstu ferli. Við setjum ekki bara skoðanakönnun inn á heimasíðu Samfylkingarinnar og spyrjum hvað henni finnst eða heimasíðu Sjálfstæðisflokksins eða Útvarps Sögu eða eitthvað svona. Við reynum að gera það með einhverjum skipulegum hætti og þetta er tilraun til þess.

Síðan er náttúrlega erfitt að svara spurningu sem felur það í sér að verið sé að henda í þjóðina ófullkomnu skjali. Ég get ekki svarað svona spurningu vegna þess að hún er svo gildishlaðin. Hún er líka ósanngjörn vegna þess að þetta plagg er býsna vel unnið. Það er undirbúningsskjal fyrir vinnu næsta vetrar og það er mikilvægt að skilja það.

Síðan var spurt um sérfræðingana í þessu ferli. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni finnst mér ekki að bara sérfræðingar og „Besserwisserar“ eigi að stjórna því hvernig stjórnlög verða á Ísland. Þess vegna er mikilvægt að spyrja spurninga. Það er spurt hverjir hafi haft einhverjar skoðanir. Ég tók eftir því að minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hunsaði gott boð stjórnlagaráðs um að eiga við það viðræður. Fulltrúar minni hlutans mættu ekki til þess fundar sem var mikil synd, en þar eru saman komnir bæði lögfræðingar, stjórnmálafræðingar, hagfræðingar, venjulegt fólk, bændur og aðrir sem eru miklir sérfræðingar á þessu sviði og höfðu mikið að segja okkur. Þeir voru mjög jákvæðir. Við fengum hluta þessa hóps inn í nefndina og það var jákvætt en ég viðurkenni að lögfræðingarnir eru hræddir (Forseti hringir.) og lögfræðingar hafa hrætt minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. [Hlátur í þingsal.]