140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:23]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, túlkanir lögfræðinga eru ýmsar og ég held að ég geti bara endurtekið það sem ég sagði á fundi í gær, það er stundum þannig að það verður fyrst leiðinlegt þegar lögfræðingunum er boðið í partíið.

Þingmaðurinn vill að fengin verði fram einhvers konar afstaða til hlutverks forseta. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Spurningin er alls ekki ljós. Hvað þýðir að forseti stýri stjórnarmyndunarviðræðum? Spurningin er þess vegna afskaplega opin. (BÁ: Eins og „meira mæli“ og svona.) Þetta hefur verið í ágætum farvegi, ég ætla að fyrirgefa þingmanninum frammíkallið því að hann er yfirleitt svo hófsamur og kurteis í framkomu, en þarna hefur þetta mál verið í þokkalegum farvegi og ég sé ekki ástæðu til að breyta því. Tillögur stjórnlagaráðs gera ekki ráð fyrir því.