140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst ræða um þá viðkvæmni sem hv. þm. Magnús Norðdahl viðhefur í ræðustól, að geta ekki tekið við margra áratuga hefð um að hér sé kallað fram í fyrir honum. Svona er nú lífið, sumir eru viðkvæmari en aðrir. Það verður að hafa það vegna þess að viðkomandi þingmaður bað forseta um að grípa inn í og áminna mig fyrir það.

Ég tala fyrir mig sem einn af minni hlutunum, ég tala ekki fyrir aðra, og hafna þeim málflutningi þingmannsins og gagnrýni að minni hlutinn hafi ekki komið að þessum breytingum og vinnu nefndarinnar. Það er algjör rökleysa og ekki sannleikur eins og felst til dæmis í þeim þingskjölum sem liggja fyrir frá mér sem nefndarmanni í þessu máli. Hér hef ég lagt fram þrjár breytingartillögur. Hér er ég með ítarlegt nefndarálit sem er mjög vel rökstutt. Ástæða þess að þingmaðurinn heldur þessu fram er kannski sú rökleysa sem hann kom með varðandi breytingartillögur mínar, að það eigi ekki við í tilvonandi þjóðaratkvæðagreiðslu að þjóðin verði spurð í leiðinni hvort draga eigi umsóknina að Evrópusambandinu til baka. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að spurning mín sé eðlisólík og ótengd því máli sem greidd eru atkvæði um.

Frú forseti. Hvers vegna er Samfylkingin fremst flokka í því akkúrat núna að ekki séu öll mál hæf í þjóðaratkvæðagreiðslu? Af hverju er Samfylkingin núna að fara að stjórna því að það séu bara málefni sem snúa að stjórnarskránni sem mega að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu? Er ekki verið að kjósa, virðulegi þm. Magnús Norðdahl, um forseta og stjórnarskrárbreytingar? Íslensku þjóðina munar ekkert um að bæta við spurningunni: Á að stoppa viðræðurnar við Evrópusambandið eða ekki? Ég vona að Samfylkingin treysti enn þá kjósendum.