140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Áður en ég kem að eiginlegu máli mínu hef ég hug á því að koma í andsvar við hv. þm. Magnús Norðdahl um efnistök í ræðu hans og hyggst koma inn á það sem því tengist síðar í máli mínu.

Mig langar að byrja á því að segja að þegar við förum í gegnum þessa umræðu er mjög mikilvægt við umfjöllun um stjórnarskrá Íslands, þetta mikilvæga plagg, þetta grundvallarplagg að öllu okkar samfélagi, að ákveðnar vinnureglur séu hafðar í huga. Það er mjög mikilvægt að þegar vinna við breytingar á stjórnarskrá fer fram sé reynt að gera það á sem víðtækustum grunni og í sátt við sem flesta. Það er einmitt þess vegna sem stjórnarskráin er þannig að það þarf samþykki á tveimur þingum til að koma í gegn breytingum, m.a. til þess að ekki sé ráðist í breytingar á stjórnarskrá nema víðtækur stuðningur sé á bak við það og unnið sé þannig að sem flestir geti staðið að því.

Þegar stjórnlagaþingskosning var dæmd ógild á sínum tíma og ákveðið var á Alþingi að grípa inn í hæstaréttardóm með það að markmiði að skipa þá einstaklinga sem kjörnir höfðu verið í ólöglegri kosningu í svokallað stjórnlagaráð þá var fyrsta skrefið stigið í þá átt að gera alla þessa vinnu að pólitískri vinnu ríkisstjórnarflokkanna. Það er mjög alvarlegt og sérstaklega í ljósi þess, eins og ég sagði hér áðan, að breytingar á stjórnarskrá á ekki að vinna með þessum hætti. Í staðinn fyrir að fara með málið ofan í pólitískar skotgrafir, eins og ríkisstjórnarmeirihlutinn gerði með því að skipa stjórnlagaráð, hefði verið eðlilegra að hefja leikinn á ný og kjósa upp á nýtt og gera það þá löglega. Eins og ég segi, sú vinna sem liggur hér til grundvallar er þar af leiðandi unnin á pólitískum forsendum, á forsendum ríkisstjórnarflokkanna og ekki með þeim hætti sem á að vinna svona breytingar.

Það er annað í þessari vinnu allri sem við þurfum að hafa hugfast þegar verið er að vinna að breytingum á stjórnarskrá. Það er að gæta að öllu forminu þannig að vinnan við hana verði sem faglegust. Ekki er hægt að segja annað, frú forseti, en að það hafi komið glögglega fram bæði við þessa umræðu og við fyrri umræðu þessa máls hversu lélegur undirbúningurinn hefur verið. Þær spurningar sem lagðar voru fyrir og voru til umræðu við fyrri umræðu voru vægast sagt margar hverjar villandi og alveg ljóst að í þær hafði ekki verið lögð sú vinna sem ber að leggja í svona mál. Það kom fram við fyrri umræðu málsins hjá fjölda þingmanna, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, bæði þingmanna sem tilheyra stjórnarliðinu og stjórnarandstöðuliðinu, að það væri mjög mikilvægt eftir þá umræðu að nefndin tæki málið fyrir og gæfi sér góðan tíma, færi yfir spurningarnar og sendi málið út til umsagnar. Við skulum átta okkur á því að það er almenn vinnuregla hér í þinginu að þau mál sem við ræðum, hvort sem þau eru þingsályktunartillögur eða lagafrumvörp, komi til umræðu í þinginu og fari síðan til umsagnar til umsagnaraðila svo að landsmönnum gefst tækifæri til að veita umsögn um viðkomandi mál. Það tekur jafnan tvær til þrjár vikur. Þá geta einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og fjöldi aðila, landsmenn allir, veitt málunum umsögn. Það er þannig sem mál eru mótuð áður en þau koma til næstu umræðu.

Í þessu máli er hraðinn svo mikill að það er ekki nokkur vilji til að gæta að faglegum sjónarmiðum, þeim eðlilegu vinnureglum sem eiga að ríkja um hvert einasta mál í þinginu og sérstaklega um mál sem tengjast stjórnarskrá Íslands. Þess í stað er málið tekið fyrir í nefnd, tekið úr nefndinni sama daginn og sett aftur á dagskrá. Og þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, mælir síðan fyrir nefndaráliti meiri hlutans, þar sem þingsályktunartillagan hafði ekki farið til umsagnar á milli fyrri og síðari umræðu eins og vaninn er, þá er haft í hótunum við þingmenn. Það er kannski sterkt til orða tekið að segja hótunum, ég ætla ekki að særa hv. þingmenn, en það er komið hingað upp í ræðustól og því haldið fram að þeir sem hyggist tjá sig um málið hér í dag og verði þess valdandi að ekki náist að afgreiða það fyrir miðnætti séu þar með hræddir við þjóðina og þori ekki að horfast í augu við þjóðina. Ég segi bara: Hvers lags bull er þetta eiginlega? Þegar málið er keyrt áfram á þeim hraða að það er ekki einu sinni sent í eðlilega þinglega meðferð til umsagnar heldur á að keyra það í gegn hér á einum sólarhring er það ekki boðlegt þegar um stjórnarskrá lýðveldisins er að ræða.

Ég vil þó ekki vera ásakaður fyrir að hindra málið og þora ekki að horfast í augu við þjóðina. Ég er mjög ánægður með að ég skuli vera það heppinn að komast á mælendaskrá nú síðdegis en ekki seint í kvöld eða nótt eins og margir aðrir hv. þingmenn sem hafa áhuga á því að tjá sig um þetta mál. Það vinnulag sem verið hefur á þessu máli er ekki boðlegt og sá málflutningur að þeir þingmenn sem vilja stunda hér faglegri vinnubrögð hvað þetta mál snertir séu ásakaðir um að vilja ekki horfast í augu við þjóðina.

Ef horft er til þeirra mála sem verið hafa á dagskrá á þessu kjörtímabili verður til að mynda sá sem hér stendur seint ásakaður um að hafa ekki stutt tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál. Ég vil nefna í því samhengi tillögu sem kom fram í júnímánuði 2009 um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Sá sem hér stendur studdi þá tillögu. Ekki verður það sama sagt um hv. stjórnarliða marga hverja. Icesave-samningarnir, bæði 1 og 2 — sá sem hér stendur studdi í báðum tilvikum þjóðaratkvæðagreiðslur um þá samninga. En því var ekki fyrir að fara hjá stjórnarliðum, hvort sem voru hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar, með einstaka undantekningum að stuðningur væri við að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um þá samninga. Sú spurning hlýtur að vakna, og ég mun koma betur inn á það hér á eftir, hvort þessir flokkar, Samfylkingin og Vinstri grænir, sem alla jafna hafa státað af því að vilja hafa hér beint lýðræði, (Gripið fram í.) vilji einungis að svo sé í þeim tilvikum sem það hentar þeirra málflutningi. (ÓN: Já.) Það kemur fram og má lesa út úr þeim spurningum sem lagðar eru fyrir hér af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og eins í þeim málflutningi sem haldið hefur verið á lofti gagnvart einstaka breytingartillögum.

Af hverju studdi til að mynda meiri hluti Samfylkingar og Vinstri grænna það ekki á sínum tíma að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-samningana, 1 og 2? Af hverju studdi meiri hluti þessara flokka heldur ekki að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu? Og hver er þessi skyndilegi áhugi núna á því að eiga samtal við þjóðina? Eru þetta ekki bara orðin tóm? (Gripið fram í.)

Varðandi margar af þeim breytingartillögum sem fyrir liggja langar mig að fjalla um nokkrar þeirra og velta því upp hver rökin eru fyrir því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sér ekki ástæðu til að taka undir að þær breytingartillögur verði bornar hér upp. Í fyrstu langar mig að koma inn á breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem snýr að því að samhliða þessari þjóðaratkvæðagreiðslu fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort stjórnvöld eigi að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Í fyrstu vil ég segja vegna ræðu hv. þm. Magnúsar Norðdahls hér áðan og fleiri stjórnarliða um að þetta séu eðlisólík mál en þar hafa þeir verið að vitna til einnar setningar í nefndaráliti sjálfstæðismanna sem ég fór að lesa eftir að hv. þingmaður vitnaði í það þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er mikið álitaefni að heppilegt sé að blanda tvennum eðlisólíkum kosningum saman með þessum hætti og á margan hátt er ófyrirsjáanlegt hver áhrifin verða.“

En á undan þessari setningu segir:

„Þá má efast um að heppilegt sé að efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum, ef til þeirra kemur.“

Mér sýnist á þessu nefndaráliti Sjálfstæðisflokksins að verið sé að tala um að óheppilegt sé að blanda saman kosningum varðandi stjórnlagaráð við forsetakosningar. (Gripið fram í: Já.) En þessi rök notar Samfylkingin til að sýna fram á að óeðlilegt sé að blanda saman kosningum um aðildarferlið að Evrópusambandinu samhliða stjórnlagaráðskosningum. Þá spyr ég: Hver er munurinn á því að blanda saman tvennum eðlisólíkum kosningum og þrennum? Það er enginn munur á því. Þetta eru orðin tóm og innihaldslaus í alla staði og sýna best hver hugurinn er á bak við þessar þjóðaratkvæðagreiðslutillögur. Menn beita fyrir sig klækjabrögðum og málflutningi sem er ekki boðlegur í sölum Alþingis. Það er nefnilega enginn munur á því að blanda saman tvennum eðlisólíkum kosningum og þrennum. Þriðja málið, sem er vilji til að kjósa um og breytingartillagan gerir ráð fyrir, hentar bara ekki hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Hvers vegna? Vegna þess að ég held að þessir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að þjóðarvilji er ekki í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Þetta kom meðal annars fram í ræðu hv. þm. Magnúsar Norðdahls hér áðan þegar hann fór að tala um eðlisólíkar kosningar og annað því um líkt en hann fór síðan yfir í að fjalla um að mjög óeðlilegt væri að spyrja þjóðina að því hvort draga ætti umsóknina til baka og fór djúpt ofan í þá umræðu og hver hans sannfæring væri í því máli. Hans sannfæring ræður því og sannfæring Samfylkingarinnar. Samfylkingarmenn hræðast það að niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu ekki í samræmi við vilja Samfylkingarinnar. Það er ótrúlegt að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin getur síðan á tyllidögum haldið því fram að hún sé fylgjandi beinu lýðræði og öðru slíku.

Mig langar, því að það er einmitt góður kafli í nefndaráliti hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um Evrópusambandsumsóknina og af hverju mikilvægt er að kjósa um áframhald þessara viðræðna, að vitna í þennan texta, með leyfi frú forseta:

„Síðar“ — eftir atkvæðagreiðsluna um umsókn Íslands að Evrópusambandinu — „hefur komið í ljós að margir stjórnarþingmenn voru beittir hótunum og óeðlilegum þrýstingi í aðdraganda þessarar atkvæðagreiðslu. Það er mikilvægt að það sé skýrt hvort þjóðarvilji sé fyrir ESB-umsókn Íslands. Sú skoðun meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að breytingartillaga á þingskjali 1028 „varði eðlisólíkt og ótengt mál“ en boðað er í þingsályktunartillögu þessari er fráleit og lýsir fyrst og fremst þeirri afstöðu meiri hlutans að einungis skuli kosið um mál sem henta ríkisstjórninni. Þetta lýsir einnig hræðslu við þá staðreynd að stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-umsóknarmálinu kunni að vera í andstöðu við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Landsmenn eru fullfærir um að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu álitamáli samhliða forsetakosningum.“

Það er með ólíkindum að fylgjast með því hvernig hv. þingmenn og hæstv. ríkisstjórn reyna með klækjabrögðum að koma því inn hjá fólki að ekki sé mögulegt af einhverjum tæknilegum ástæðum að kjósa um þetta mál samhliða forsetakosningunum. Eins og ég sagði benda allar fréttir til þess að það sé að fjara mjög undan þessu eina heilaga máli ríkisstjórnarinnar. Nýjar fréttir í morgun benda til þess að iðnaðurinn, eitt af síðustu hálmstráum Samfylkingarinnar í Evrópusambandsmálum, eða stór hluti þeirra sem eru innan þeirra samtaka sé mótfallinn Evrópusambandsaðild eða um 70%. Það er að gerast á öllum sviðum — ríkisstjórnin er ekki að vinna í samræmi við þjóðarvilja.

Það er merkilegt að fylgjast með því í ljósi alls sem á undan er gengið að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn þess flokks skuli láta Samfylkinguna teyma sig áfram í þessum leik og skuli ekki fallast á það að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um hvort aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvað forusta þess flokks er að hugsa varðandi þetta mál. Það er að verða lítill munur á þessum tveimur flokkum og forustumönnum þeirra. Það er að verða lítill munur í þessu máli og mörgum öðrum með einstaka undantekningum.

Hvað aðrar breytingartillögur snertir væru margar þeirra vel til þess fallnar að verða bætt við í þennan spurningavagn, ef svo mætti að orði komast. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvað hafi ráðið för þegar þessar spurningar voru ákveðnar. Til að mynda er hér breytingartillaga þar sem 1. flutningsmaður er hv. þm. Jón Bjarnason — sá sem hér stendur er meðflutningsmaður þeirrar tillögu — um að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur opinberri þjónustu, óháð búsetu. Einnig að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur að þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum vegna hins opinbera, óháð búsetu. Ég held nefnilega og það hefur komið fram hér í umræðunni að orðalag spurninga skipti gríðarlegu máli í þessu sambandi. Ég er sannfærður um að ef spurt væri spurninga í þessa veruna að eðlilegt væri að spyrja þjóðina að því hvort vilji sé til að styrkja stöðu landsbyggðarinnar og landsins alls, byggðajafnréttis í stjórnarskrá.

Hvað varðar aðrar tillögur þá er hér breytingartillaga frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum?“

Þarna er verið að fjalla um Icesave-samningana. Ríkisstjórnin og forusta og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru ekki tilbúin að leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um það hvort hún vilji sjálf geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um samninga sambærilega Icesave-samningunum. Þarna kemur enn á ný upp sú spurning, rétt eins og varðandi Evrópusambandsspurninguna, af hverju ríkisstjórnin og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru ekki tilbúin að taka inn spurningar sem ekki henta fyrir fram gefinni stefnu ríkisstjórnarinnar.

Það lá ljóst fyrir á sínum tíma að ríkisstjórnarflokkarnir voru mjög andsnúnir því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-samningana, eins og ég rakti í máli mínu. Stærstur hluti þingmanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar felldi breytingartillögur hér í þingsal við 1. og 2. umr. þess máls sem hefðu sett málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er sannfærður um að það er mikið atriði að spyrja þjóðina að því hvort hún vilji halda þessu ákvæði inni.

Síðan er breytingartillaga frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana?

Já.

Nei.“

Það er nefnilega mikil vakning í mörgum nágrannaríkjum okkar um stöðu fullveldis og hversu mikilvægt er hjá þjóðum að halda fullveldi sínu. Umræður til að mynda í Noregi um nýlega skýrslu um úttekt á áhrifum EES-samningsins eru gott dæmi um þetta þar sem Norðmenn fjalla um hve alvarlegt það er hversu mikið fullveldisafsal hafi verið fólgið í EES-samningnum og velta því fyrir sér hvernig eigi að bregðast við þessu og hvernig eigi að draga úr fullveldisafsalinu til Evrópusambandsins án þess þó að skerða möguleikana til frjálsra viðskipta með vörur og að einhverju leyti þjónustu.

Ég held að það sé mikilvægt að spyrja að því hvort þjóðin vilji ekki styrkja fullveldið meira en tillögur stjórnlagaráðs gera ráð fyrir. Kann að vera að það sé vilji hjá þjóðinni til að styrkja fullveldið enn frekar í stjórnarskrá en breytingar stjórnlagaráðs gera ráð fyrir? Kann að vera að það sé vilji hjá þjóðinni til að styrkja fullveldið enn frekar í stjórnarskrá en núverandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir? Ég held að það sé mikið atriði að spyrja að því fremur en margra þeirra spurninga sem meiri hlutinn leggur til.

Nú, frú forseti, sé ég að tíma mínum er lokið. Ég á eftir að fara yfir nokkrar breytingartillögur en vil þó segja í lokin að það er mjög alvarlegt, og endurtaka það, þegar ríkisstjórnin gengur þannig fram að breytingartillögur margar hverjar, hvort sem þær eru frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur eða öðrum, fá ekki brautargengi hér á þeirri forsendu einni saman, og það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr því, að ríkisstjórnin vill bara (Forseti hringir.) spyrja spurninga sem henta málflutningi hennar.