140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom að í máli mínu er stjórnarskráin plagg sem við verðum öll að umgangast af mikilli virðingu. Það er ekkert óeðlilegt að tekist sé á í pólitískum málum sem skipt geta mönnum í flokka og það er það sem skiptir mönnum í flokka, en stjórnarskráin er plagg sem við eigum að vinna að breytingum á með öðrum hætti. Ákvæði stjórnarskrárinnar eru þannig að henni verður ekki breytt nema Alþingi samþykki breytingarnar bæði fyrir og eftir alþingiskosningar. Það er einmitt vegna þess að stjórnarskráin á ekki að taka breytingum með nýrri ríkisstjórn eða á hverju ári.

Þess vegna er svo mikilvægt að öll vinna við breytingar á stjórnarskrá sé unnin í víðtækri sátt og með aðkomu sem flestra, að sjónarmið sem flestra séu höfð þar að leiðarljósi. Það hefur því miður ekki verið gert í þessu máli. Ég sé það þegar þingsályktunartillaga eins og þessi kemur fram, sem fær ekki einu sinni að fara til umsagnar eins og annars stærstur hluti þingmála, að menn umgangast stjórnarskrána ekki af þeirri virðingu sem henni ber.

Varðandi síðan ríkisstjórnina og af hverju hún tekur almennt á öllum málum, hvort sem það eru stórmál eða önnur, með þeim hætti að átök verða um þau, hefur oft hvarflað að mér að hæstv. forsætisráðherra sé ef til vill alin upp við það í pólitík að velja aldrei frið þegar ófriður er í boði. (Gripið fram í.) Það virðist vera svo að hæstv. forsætisráðherra sé það fyrirmunað og ríkisstjórnin virðist einhvern veginn þrífast á því að hafa átök um öll mál í stað þess að reyna að vinna þau í meiri sátt við alla sem hlut eiga að máli hverju sinni.