140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í máli sínu að í upphafi umræðunnar hefði hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagt að þeir sem yrðu þess valdandi í dag að málið yrði ekki afgreitt fyrir miðnætti yrðu þar með flokkaðir meðal þeirra sem ekki væru tilbúnir til að horfast í augu við þjóðina.

Ég fagna því að ég skuli komast á mælendaskrá þetta snemma þannig að ég verði ekki flokkaður af hv. þingflokki Samfylkingarinnar sem andstæðingur þjóðarinnar. Sumir hv. þingmenn tala með klækjamálflutningi um að ekki sé hægt að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um ýmsar breytingartillögur, þar á meðal frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, sem eru flokksfélagar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og frá hv. þingmönnum Vigdísi Hauksdóttur og Lilju Mósesdóttur. Þeir sem það segja eru þeir sem ekki þora að horfast í augu við þjóðina og leyfa þjóðinni að taka afstöðu til spurninga nema þær séu fyrir fram mótaðar af hæstv. ríkisstjórn og henti málflutningi hæstv. ríkisstjórnar í einu og öllu.