140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Við ræðum stjórnarskrána og þær æfingar sem eiga nú að fara af stað um mögulegar breytingar á henni. Það er margt vont við þetta mál og eitt af því er að sjálfsögðu að mörg okkar sem erum til í að gera breytingar á stjórnarskrá, til dæmis að styrkja auðlindaákvæðið svokallaða, höfum því miður enga lyst á að taka þátt í því sem hér á sér stað vegna þess hvernig haldið hefur verið á málinu og hvaða stefnu það hefur tekið. Það hefur líka skort, frú forseti, mjög á það að reynt hafi verið að ná einhvers konar jafnvægi eða sátt á milli þingmanna um leið sem getur orðið til þess að við fáum breytingar á stjórnarskrá.

Frá því að ákveðið var að hafa að engu úrskurð Hæstaréttar hefur málið verið í miklu uppnámi og að mínu viti hefur þróun þess farið versnandi dag frá degi. Nú er svo komið að fara á í skoðanakönnun um það hvort þingið eigi að leggja fram frumvarp sem byggir á stjórnlagaráðstillögunum eftir að tekið hefur verið tillit til laga og alþjóðasamninga og þess háttar. Það er ekki búið að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki er búið að fara yfir hverja eina tillögu, vega hana og meta og finna út úr því hvað þarf að laga og hvað er gott og allt það, það er eftir. Nú segja menn: Það er seinni tíma verk, nú verðum við að athuga hvað þjóðin vill. Jú, það er ekkert athugavert við að einhverjir þingmenn vilji fara þessa leið svo að ég taki það skýrt fram enda skiptar skoðanir um málið, en ég ætla að lýsa persónulegu skoðunum mínum um þetta.

Ég held að málið sé komið í miklar ógöngur og tel vandséð hvernig eigi að vinna málið í framhaldinu, hvort sem farið verður í þessa atkvæðagreiðslu eða skoðanakönnun samhliða forsetakosningum eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að ef við ætlum að breyta stjórnarskrá að einhverju leyti þurfi að breyta mikið um takt hér á næstu vikum og mánuðum í þessu máli, það er einfaldlega þannig. Annars horfum við fram á margra mánaða eða jafnvel ára átök og ég ætla að leyfa mér að segja, frú forseti, bara tómt rugl um þetta grundvallarplagg okkar Íslendinga.

Í þessari breytingartillögu er spurt nokkurra spurninga. Meðal annars eru grundvallarspurningar, kannski má orða það þannig, um hvað eigi að gera. Síðan eru hér fimm aðrar spurningar sem ég verð að segja að koma mér nokkuð á óvart. Ég er reyndar, forseti, ekki viss um hvort ég er með nýjustu útgáfuna af tillögunni, það væri ágætt ef starfsmenn þingsins gætu laumað henni til mín. Ég greip þetta frammi en mér sýnist að þetta sé ekki rétt.

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður spyr um breytingartillögu frá meiri hluta nefndarinnar, ekki satt? Hún er á þskj. 1098.)

Takk, frú forseti, þetta var kunnuglegt en ekki nógu kunnuglegt.

Já, hér er þessi tillaga þar sem búið er að lista upp spurningar og hefur tillagan breyst töluvert frá þeirri tillögu sem ég var byrjaður að lesa upp og eru þær breytingar til bóta eins og þeir sérfræðingar hafa sagt sem komið hafa fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Engu að síður eru enn þá inni þessar spurningar sem ég að minnsta kosti hef ekki fengið neinn botn í af hverju eru þarna, annan en þann að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi mikinn áhuga á því að komast að því hvað þjóðinni finnst um þær og sjálfsagt sé að nota bara ferðina fyrst verið er að fara í þessa atkvæðagreiðslu yfirleitt. Það er væntanlega það sem býr að baki.

En þingmenn hafa ýmsar skoðanir á því hvað eigi að spyrja um þegar farið er af stað í svona leiðangur og lagðar hafa verið fram nokkrar breytingartillögur sem lýsa mjög vel þeim mun, ég ætla að orða það þannig, sem er á því sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur mikilvægast að spyrja um versus það sem sum okkar teljum að eigi að vera þarna inni.

Meðal annars er hér breytingartillaga sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram um að spurt verði hvort draga eigi aðildarumsókn að Evrópusambandi til baka, hvort halda eigi áfram því ferli öllu saman. Það er að sjálfsögðu mjög eðlilegt að nota ferðina, fyrst það á að spyrja um atkvæðavægi, að spyrja þessarar mikilvægu spurningar nú þegar. Það vantar ekkert upp á til að geta spurt þjóðina líkt og í upphafi máls hefði verið hægt að spyrja þjóðina hvort fara ætti af stað í þær viðræður sem farið var í. Þar af leiðandi er að mínu viti engin ástæða sem rökstyður það að ekki eigi að spyrja um þetta, ekki frekar en spurninguna um þjóðkirkjuna.

Lögð hefur verið fram tillaga frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, sem er í raun og veru um 26. gr. núgildandi stjórnarskrár, hvort hið svokallaða synjunarákvæði forsetans eigi að vera til staðar eða ekki. Ég velti fyrir mér af hverju þessi spurning er ekki í tillögum meiri hlutans, ég held að þjóðin hafi mikinn áhuga á að tjá sig um þetta ákvæði af fenginni reynslu um það hversu mikilvægt það er og hversu mikilvægt það var að forseti Íslands beitti þessari grein þegar við stóðum í Icesave-deilunum við Breta og við meiri hluta ríkisstjórnarinnar.

Það má líka minnast þess að margir fögnuðu mjög þegar forseti beitti synjunarákvæði 26. gr. á svokölluð fjölmiðlalög fyrir nokkrum árum. Ég tek hins vegar undir með þeim sem segja að ekki megi ofnota ákvæði eins og þetta, ég er algjörlega sammála því að nota verður það mjög sparlega. Þingið og meiri hluti þingsins á að sjálfsögðu að ráða för. Það á ekki að vera sífellt að grípa þar inn í, og ég held nefnilega að það hafi ekki verið gert. Það var gert í þessum gríðarlega stóru hagsmunamálum þar sem var löngu ljóst að ætlun þeirra sem vildu samþykkja þetta eða ríkisstjórnarinnar fór algjörlega í bága við það sem þjóðin vildi. Þar af leiðandi brást forsetinn mjög rétt við.

Síðan er önnur breytingartillaga frá sömu hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal um hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana. Þetta er mjög mikilvæg spurning, snertir að einhverju leyti þær tilraunir sem eru hér uppi varðandi Evrópusambandið. Mér finnst því mjög eðlilegt að velta því upp af hverju þessar spurningar eigi ekki heima þarna inni alveg eins og aðrar. [Kliður í þingsal.]

Síðan er breytingartillaga frá sömu hv. þingmönnum um hvort forseti eigi að stýra myndun ríkisstjórnar. Ég verð svo sem að viðurkenna að ég var ekki búinn að sökkva mér algjörlega ofan í það og finna út hvaða augum ég liti það en ég sé ekkert athugavert við að spurt sé um þetta alveg eins og hinar spurningarnar.

Síðan er breytingartillaga frá hv. þingmönnum Lilju Mósesdóttur, Jóni Kr. Arnarsyni og Valgeiri Skagfjörð um að spurt verði hvort almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Ég held að mjög áhugavert væri að taka umræðu um hvort þetta ætti að vera í stjórnarskrá og væri sjálfsagt að athuga hug þjóðarinnar til þessarar tillögu.

Hér er svo tillaga frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal um tvo nýja valkosti sem eru eftirfarandi, með leyfi forseta: „Ég vil að unnið verði að breytingum á gildandi stjórnarskrá án þess að tillaga stjórnlagaráðs liggi þar til grundvallar“ eða: „Ég vil að stjórnarskrá Íslands verði óbreytt frá því sem nú er.“ Hér er til dæmis valkostur, frú forseti, sem ég mundi vilja haka við, sem er sá fyrri, að vinna að breytingum á núgildandi stjórnarskrá. Ég hef fyrir löngu sagt það í þessum ræðustól að ég tel að allt of mikið hafi verið færst í fang með því að fara í allar þær breytingar sem lagðar hafa verið til og hef aldrei séð þörfina á því að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Ég sé hins vegar fulla þörf á því að fara í gegnum þá sem gildir í dag og gera á henni breytingar sem mér sýnist að þurfi að gera til að bregðast við breytingum í samfélaginu og slíku. Ég hef þar nefnt að ég vilji skoða auðlindaákvæðið, og einnig skipun dómara, ég hef kannski ekki komið fram með það hér og kannski ekki mótað það fyrir mér en ég held að það ferli allt saman þurfi að endurskoða. Svo eru að sjálfsögðu kaflar eins og um mannréttindi og annað sem þarf sífellt að fylgjast með hvort standist tímans tönn.

Síðan er hér tillaga frá hv. þingmönnum Lilju Mósesdóttur, Jóni Kr. Arnarsyni og Valgeiri Skagfjörð um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög er varða skattamál. Mér finnst vanta smáútskýringu á því við hvað er átt, hvort það sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka skattana í tvöhundraðasta sinn eða hvernig það er, eða hvort hér er verið að tala um einhvers konar alþjóðlega skatta eða annað sem getur komið upp. Ég átta mig ekki alveg á hvað er þarna að baki en tel enga ástæðu til að spyrja ekki um þetta fyrst verið er að fara af stað með svona könnun.

Síðan er breytingartillaga frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal um að í breytingartillögum meiri hlutans verði tekið út orðið „nýrri“ en í breytingartillögum meiri hlutans er hvarvetna spurt um hvort í nýrri stjórnarskrá eigi þetta að vera eða hitt. Það kann að vera leiðandi, ég veit það ekki en óþarfi er að taka einhverja áhættu og betra að hafa þetta frekar almennt.

Síðan er breytingartillaga frá hv. þingmönnum Jóni Bjarnasyni, Atla Gíslasyni, Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Einari Daðasyni og Telmu Magnúsdóttur, þar sem spurt er um jafnræði allra landsmanna þegar kemur opinberri þjónustu, óháð búsetu og þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum vegna hins opinbera, óháð búsetu. Þetta er ekki verri spurning en spurningin um þjóðkirkjuna eða atkvæðavægið, þannig að ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst vanta mjög mikið upp á það að einhver rök séu á bak við þær spurningar sem settar eru fram í breytingartillögum meiri hlutans.

Ég minntist áðan á tillögu um ákvæði um framsal á fullveldi eða þátttöku í alþjóðasamningum og slíku. Það er full ástæða til að minna enn og aftur á tillögu Vigdísar Hauksdóttur um að greidd verði atkvæði um þetta Evrópusambandsbrölt um leið og atkvæðagreiðslan fer fram, það er full ástæða til þess. Nú hefur komið fram í fréttum í dag, sem er vitanlega ekkert nýtt, en mér skilst að það hafi verið blaðamannafundur í morgun í Brussel þar sem einhverjum íslenskum blaðamönnum var boðið að koma á, ef ég skil þetta rétt. Þar fór starfsmaður miðstöðvar Evrópusambandsins um rannsóknir á stefnumörkun aðildarríkja í engar grafgötur um það að Íslendingar munu ekki fá neinar undanþágur í sjávarútvegi. Við getum bara gleymt því. Það var í morgun sem þetta kom fram á fundinum og kemur reyndar heim og saman við orð herra Stefan Füles frá því 2010. En þetta er ný frétt og ég vona að hún rati til þeirra sem helst þurfa kannski að lesa hana og heyra að þessi ágæti starfsmaður Evrópusambandsins — og ég tek það fram að hann er starfsmaður, við erum ekki að tala um einn af þessum kommissörum á toppnum — metur það svo að við munum ekki eiga möguleika á neinum undanþágum, kannski einhverjum smálagfæringum tímabundið, sjálfsagt að veiða hornsíli eða eitthvað slíkt, en annað fáum við ekki samkvæmt þessu.

Í fyrri umr., frú forseti, fór ég yfir ýmsar vangaveltur varðandi þær tillögur stjórnlagaráðs sem eru grunnur að þeirri vegferð sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill fara í. Það er ýmislegt í bókum stjórnlagaráðs eða þeim drögum sem var skilað hér inn sem maður staldrar við þegar reynt er að skýra greinar og þá hugsun sem er þar á bak við. Töluvert mikið er um að lagt sé til að Alþingi fari í frekari vinnu eða sett séu lög um þetta og hitt, og hitt og þetta skýrt. Mjög mikið er um spurningar sem eru mjög almenns eðlis og í raun ekki kláraðar, þær eru skildar eftir opnar til frekari túlkana og frekari umræðu. Það gengur að sjálfsögðu mjög illa upp að í stjórnarskrá séu margar greinar sem kalli á túlkanir því að að sjálfsögðu mun reyna á það fyrr en síðar fyrir dómstólum. Þá eru það dómstólarnir sem skera úr um það sem stjórnlagaráðið treystir sér ekki til að kveða upp úr um, ef ég hef skilið þetta allt saman alveg rétt.

Meðal annars kemur fram í skýringum með 111. gr. þar sem er rætt um framsal valds, með leyfi forseta:

„Rætt var í stjórnlagaráði hvort útfæra ætti nánar þá málsmeðferð sem viðhafa ætti vegna afturköllunar áður framselds valds en ákveðið var að falla frá því og eftirláta það venjum og hefð í íslenskri stjórnskipan.“

Nú velti ég því fyrir mér hvort þeir sem eiga að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs og hugsanlega kjósa um þær séu allir sérfræðingar í venjum og hefðum íslenskrar stjórnskipunar og hvernig þeir muni skilja þessa grein og taka á henni og hvernig þeir munu vilja hafa ákvæði um hvernig eigi að kalla til baka framsal valds. Ég held að það gæti vafist fyrir fólki því miður. Greinin um framsal valds er ein af þeim greinum sem fer óskaplega mikið í taugarnar á þeim er hér talar, og mér finnst algjör óþarfi að vera með einhvern losarahátt á þessu eða auka hann með þeim breytingum sem þarna er talað um.

Síðan eru ýmsir þættir aðrir í tillögunum sem hefði verið ástæða til að spyrja þjóðina um. Hér er til dæmis tillaga um vantraust á ráðherra. Er það virkilega þannig að við viljum að þegar borið er fram vantraust á ráðherra fylgi með tillaga um eftirmann ráðherrans? Hvað þýðir það? Þá er verið að takmarka mjög getu þeirra sem hugsanlega vilja skipta út ráðherra, væntanlega er það yfirleitt stjórnarandstaðan en það getur svo sem vel verið að einhverjir stjórnarliðar mundu vilja taka þátt í slíku. Það takmarkar mjög getu þeirra til að leggja fram slíka tillögu. Við getum séð fyrir okkur að þrír, fjórir flokkar séu í stjórnarandstöðu og að þeir geti komið sér saman um að forsætisráðherra eða einhver annar ráðherra sé ómögulegur og því vilji þeir leggja fram tillögu um vantraust á hann, en það getur verið erfitt fyrir þessa fjóra flokka að koma sér saman um eftirmann. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp. Ef í stjórnarskrá á að vera ákvæði um að hægt sé að bera fram tillögu um vantraust á ráðherra eiga þingmenn að sjálfsögðu að geta lagt fram slíka tillögu og einfaldur meiri hluti í þinginu á að ráða því hvernig fer. Þetta er 91. gr.

Varðandi forsetakaflann sem ég hef minnst á sem er 26. gr. þá er skoðun mín að sú grein eigi að vera í stjórnarskrá, reynslan sýnir okkur að það sé til bóta, það sé gott að hún sé inni. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að vitanlega er það undir hverjum þeim sem situr í embætti komið hvernig þeirri reglu er beitt. Ég er talsmaður þess að henni sé beitt mjög sparlega en reynslan hefur sýnt okkur að það getur verið þarft og gott að grípa til hennar þegar mikið hefur legið við eins og í þessu ólukkans Icesave-máli sem ríkisstjórnin lagði mjög mikið á sig að reyna að koma á þjóðina, sem okkur tókst nú mörgum hér sem betur fer að koma í veg fyrir að yrði.