140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, ég tel fulla þörf á að greiða sem allra fyrst atkvæði um það sem felst í tillögu hv. þingmanns og flokkssystur hans, Vigdísar Hauksdóttur. Ég tel að það sé mikilvægt til að hreinsa andrúmsloftið og vildi gjarnan að það yrði gert í kvöld.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður var ekki ýkja ánægður með þau drög sem hér liggja undir og lagt er til að verði send í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hv. þingmaður lýsti þeirri lögmætu skoðun að hann væri býsna ánægður með núverandi stjórnarskrá og teldi að ef það ætti að breyta eða samþykkja nýja stjórnarskrá ætti að gera það á grundvelli hennar. Það er fyllilega eðlilegt sjónarmið og þess vegna vil ég líka segja að ég mundi styðja hér tillögu sem hefur komið fram hjá tveimur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að einn af valkostum í slíkri atkvæðagreiðslu yrði milli óbreyttrar stjórnarskrár eða nýrrar stjórnarskrár sem gerð yrði á grundvelli þeirrar sem nú er í gildi en ekki á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Það er fullkomlega eðlilegt að veita fólki þá valkosti.

En ef hann er þessarar skoðunar, er þá ekki eðlilegt að fólk fái að velja þar á milli? Ástæðan fyrir því að ég varpa þessari spurningu til hv. þingmanns er sú að hann er, eins og ég þekki hann, maður orða sinna. Í gær lýsti hv. þingmaður því yfir í fjölmiðlum að Framsóknarflokkurinn tæki ekki þátt í að standa gegn því að stjórnarskrárdrögin yrðu lögð fyrir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum. Nú spyr ég hv. þingmann: Ætlar Framsóknarflokkurinn að taka þátt í því með Sjálfstæðisflokknum að eyðileggja þann möguleika með því að standa hér í málþófi? Mun Framsóknarflokkurinn greiða fyrir því að það náist að afgreiða þetta mál (Forseti hringir.) áður en sá frestur er úti á miðnætti?