140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt til getið hjá hv. þingmanni að ég styðji tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur en ég styð það hins vegar að hún komist á dagskrá og að um hana verði greidd atkvæði. Ég er henni andvígur og mun beita mér fyrir því af mínum litlu kröftum að hún verði felld. Hins vegar er sjónarmið þess ágæta hv. þingmanns fullkomlega eðlilegt. Hún stendur fyrir skoðanastraum sem sjálfsagt er að ryðjist líka hér yfir pontuna.

Hitt er svo alveg ljóst hverjum manni sem fylgist með að Sjálfstæðisflokkurinn er í þessari umræðu að reyna að tefja hana til að koma í veg fyrir að það náist að ljúka umræðunni með þeim hætti að hægt verði að samþykkja tillögu um að stjórnarskrárdrögin, með þeim breytingartillögum sem kunna að verða samþykktar, komist til atkvæða samhliða forsetakjöri. Þetta er augljós tilgangur Sjálfstæðisflokksins og spurningin er hvort Framsóknarflokkurinn, sem er sá flokkur sem átti upphafið að stjórnarskrárbreytingunum, ætlar að láta tjóðra sig í enn eitt skiptið við Sjálfstæðisflokkinn. Ég taldi að svo væri ekki (SDG: Hvenær hefur það gerst?) og það taldi ég út frá því að hinn góði þingmaður, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, lýsti því yfir eftir að hafa flækst inn í vitleysu Sjálfstæðisflokksins, sem varð sér hér til skammar fyrir tveimur dögum eins og menn muna, að Framsóknarflokkurinn mundi ekki standa í vegi fyrir því að málið gengi til þjóðaratkvæðis samhliða forsetakosningum.

Ég hef ekki reynt Framsóknarflokkinn að því að standa ekki við orð sín og allra síst hv. þingmann. Þess vegna spyr ég: Af hverju tekur Framsóknarflokkurinn þátt í þessu? Af hverju tekur hann þátt í þessum skrípaleik eins og hann birtist hér þegar menn misnota ákvæði þingskapalaga um andsvör? Framsóknarflokkurinn þarf að gera það upp við sig hvort hann vill vera þekktur fyrir að standa fyrir sín orð eða hvort hin (Forseti hringir.) nýja kynslóð (SDG: Er það skrípaleikur að ræða stjórnarskrána?) framsóknarforustunnar ætlar að taka upp nýja siði og hætta (Forseti hringir.) að láta orð sín verða væg gulli.