140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að koma úr heilsufarsmælingu áðan og ég hefði boðið hæstv. ráðherra með ef ég hefði vitað að þrýstingurinn væri farinn að vaxa svona. Ég verð að segja, frú forseti, að ég skil bara ekki hvað hefur komið yfir hæstv. utanríkisráðherra þegar ráðherrann fer hér að tala um að framsóknarmenn hafi flækst inn í einhverja vitleysu Sjálfstæðisflokksins. Nú getur hæstv. ráðherra ekki svarað þannig að ég ætla ekki að spyrja hann neinnar spurningar.

Ég fatta ekki alveg hvað hæstv. ráðherra á við. Hér eru örfáir þingmenn búnir að flytja ræður í dag um þetta merkilega mál, stjórnarskrána. Ég hygg að þrír eða fjórir framsóknarmenn séu búnir að tala. (SDG: Ég notaði ekki einu sinni allan tímann.) Já, og formaður flokksins notaði ekki einu sinni allan tímann, frú forseti, þannig að ég botna bara ekkert í hvað hæstv. utanríkisráðherra er að fara.

Hæstv. utanríkisráðherra talar um að Framsóknarflokkurinn megi ekki láta tjóðra sig við Sjálfstæðisflokkinn. (Utanrrh.: Hann má það ekki.) Þar er ég hjartanlega sammála honum. Við lambhrútarnir látum slíkt ekki henda okkur, hæstv. utanríkisráðherra, að vera tjóðraðir við einhverja aðra flokka. Mér finnst ágætt að upplýsa hæstv. ráðherra um að ég geri engan mun á því að láta tjóðra mig við Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna, hvort tveggja er slæmt. Það verður ekki þannig að við séum tjóðraðir á einhvern bás með einhverjum öðrum flokkum.

Hæstv. ráðherra getur alveg treyst því að framsóknarmenn muni standa við orð sín eins og alltaf. Við erum ekki að fara að skemma það ferli sem hæstv. ráðherra er greinilega mjög annt um að verði hér. Hæstv. ráðherra líkti sjávarútvegsfrumvarpi við bílslys. Það er mín persónulega skoðun, ekki Framsóknarflokksins, að við séum að horfa upp á stórslysamynd eins og þær gerðust bestar á áttunda áratugnum þar sem heilu hnettirnir lögðust í rúst. Slík hryllingsför er það sem við erum að sjá hér en það er mín persónulega skoðun, hæstv. ráðherra, ekki lambhrútanna allra.

Ég vil síðan segja við hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, að treysta nú framsóknarmönnum. Við höfum alltaf staðið við okkar orð.