140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé kominn tími til að utanríkisráðherrann fari að snúa plötunni við eða skipta kannski um plötu. Það er alveg sama um hvað er rætt hér, fiskveiðistjórn eða stjórnarskrá, alltaf kemur upp gamla rullan um Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Það er skiljanlegt í ljósi óvinsælda ríkisstjórnarinnar og fylgishruns Samfylkingarinnar að skjálfti fari um utanríkisráðherrann. Ég bið um frið til að flytja mál mitt í fyrsta sinn í þessari umræðu án þess að sitja undir ásökunum um málþóf. Flutti ég ekki hér málefnalega ræðu? Var ég ekki að tala um efni máls? Var ég eitthvað að blanda óskyldum málum inn í mál mitt? Ég kannast bara ekkert við það.

Mig langar til að bera undir hæstv. ráðherra, sem hefur mikla skoðun á því atriði sem ég gerði að umtalsefni og snertir náttúruauðlindirnar og með hvaða hætti við ættum að útfæra nýtt ákvæði um það í stjórnarskránni, hvort hann geti séð fyrir sér að geta stutt tillögur stjórnlaganefndar að slíku ákvæði þar sem væri byggt á því að með tilvísun til þjóðareignar væri meira verið að vísa til fullveldis þjóðarinnar og heimildar okkar á þinginu til að setja lög og reglur og kveða á um skyldu til að nýta auðlindir landsins með sjálfbærum hætti og jafnvel gera nýtingarsamninga og annað þess háttar en að fara ekki hina leiðina sem stjórnlagaráðið hefur lagt til, að með þjóðareignarhugtakinu væri verið að innleiða einhvers konar ríkiseignarfyrirkomulag á þeim náttúruauðlindum sem ekki eru í einkaeigu.

Ef ráðherrann kýs að fara síðari leiðina, þ.e. að slá með óbeinum hætti ríkiseign á þær auðlindir sem ekki eru í einkaeigu, með hvaða rökum er það þá gert? Hvað er það sem knýr á um að (Forseti hringir.) slegin sé ríkiseign með þeim hætti sem í því mundi felast?