140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er verið að fara í ráðgefandi skoðanakönnun, sagði hv. þingmaður. Það er einmitt það sem verið er að gera, þetta er bara skoðanakönnun um mál sem er ekki fullbúið. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé óþarfi. Af hverju gera menn svona lítið úr því mikla og víðtæka samráði sem nú þegar hefur átt sér stað? Af hverju eru menn ekki tilbúnir að byggja áframhaldandi vinnu þingsins á þeim grundvelli? (Gripið fram í.) Það er helber lygi, virðulegi forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi talað gegn samráði við fólkið í landinu. (ÁI: Ja, hér.) Það er helber lygi. (ÁI: Helblá, væntanlega.) Það er þannig.

Hér hrista hausinn þingmenn sem þreytast ekki á því að bera Sjálfstæðisflokkinn og þann sem hér stendur röngum sökum, kannski vegna þess að þeir treysta sér ekki í hina efnislegu umræðu um málið. Ég held að tími sé kominn til þess að þeir stjórnarliðar sem hér eru með frammíköll og skæting tali hreint út um það hvort þeir vilja að tillögur stjórnlagaráðsins verði hin nýja íslenska stjórnarskrá. Þeir eiga þá um leið að tjá sig um ýmsa þætti. Vilja þeir afnema þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni? Koma hingað og tjá sig um það, segja hug sinn allan hvort þeir vilji að atkvæðisrétturinn verði jafnaður þannig að þingmönnum á landsbyggðinni stórfækki. Ég kalla eftir því að menn taki afstöðu til grundvallarþátta í þessari stjórnarskrá eins og hún liggur fyrir í drögum. Menn ættu að koma hér upp og sýna einhvern kjark í þessari umræðu, vera ekki með tuð um málþóf (Gripið fram í.) og einhver formsatriði. (Gripið fram í: Svaraðu …) Þetta er aumingjaskapur. (ÁI: Eigum við að lengja …?) Þetta er algjör aumingjaskapur. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti (Gripið fram í: Ekki mjög mikið …) Get ég fengið að ljúka máli mínu? (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður hefur hér spurt hvort þeir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem að breytingartillögunum standa meini eitthvað með þeim. Að sjálfsögðu. Í prinsippinu teljum við ekki þörf á skoðanakönnun á þessu stigi. Við teljum, eins og formaður stjórnlagaráðsins, að kominn sé tími til að þingið vinni vinnuna sína. Þannig er það. (Forseti hringir.) Ef það á hins vegar að fara fram skoðanakönnun og ef það verður niðurstaða meiri hluta þingsins er eins gott að eitthvert vit sé í spurningunum sem þar (Forseti hringir.) verða bornar fram og af þeirri ástæðu eru þessar tillögur lagðar hér fram. (LGeir: Eigum við ekki að klára málið þá?)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að gefa ræðumönnum hljóð, gæta orða sinna og virða tímamörk.)