140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil nú fyrst af öllu segja, í ljósi þeirra orða sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði þess efnis að mesti myndarbragurinn væri af því að ljúka þessu máli á næstu klukkustundum, að ég er ekki sammála henni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að fella ef það kemur til atkvæða af þeirri einföldu ástæðu að ég tel nóg unnið að þessu leytinu til og tel full efni til þess fyrir þingið að rækja þá skyldu sína að vinna úr þeim gögnum og þeim tillögum að breyttri stjórnarskrá sem fyrir liggja. Við ættum að einhenda okkur í það verk. Mesti myndarbragurinn sem við mundum sýna í þessu máli væri að ná saman um að þannig ætluðum við að vinna. Af einhverjum ástæðum er mikil andstaða við það hér í þinginu að vinna málið með þeim hætti. Ég kann ekki fullar skýringar á því.

Það er engin sérstök skilyrðing í því fólgin að leggja fram tillögu undir þeim skilmálum sem greinir í áliti 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Alls ekki. Það liggur einfaldlega þannig fyrir að í mínum huga er óljóst hvort meiri hluti sé í þinginu fyrir þessari málsmeðferð. Ég tel fullkomlega eðlilegt að láta á það reyna fyrst af öllu hvort meiri hluti sé fyrir slíku áður en menn fara að tala um einhverjar skilyrðingar. Við heyrðum til dæmis með ólíkindum harða umræðu hér á milli núverandi samstarfsmanna í stjórnarmeirihlutanum, forsætisráðherra hæstv. og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er í mínum huga ekki gott fordæmi sem þar var sýnt og lítill (Forseti hringir.) bragur að því að birta þjóðinni þau átök og þau skoðanaskipti sem þar fóru fram.