140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Í tilefni þeirra orðaskipta sem urðu milli hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Jóns Bjarnasonar vil ég segja að þau kann að greina á um ýmislegt, en eitt er ég sannfærð um að bæði eru þau stuðningsmenn þess að þjóðin fái að greiða atkvæði um það og staðfesta það, og vilji þeirra beggja stendur til þess, að náttúruauðlindir, og þá sérstaklega auðlindir hafsins, verði skilgreindar í stjórnarskrá sem eign þjóðarinnar.

Frú forseti. Hv. þingmaður segist ekki viss um hvort meiri hluti sé á þingi fyrir því að fara þessa leið. Ég hlýt að minna hann á að meiri hluti þingsins tók þá ákvörðun 22. febrúar síðastliðinn, með samþykkt sérstakrar ályktunar, að fela hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leggja fram þingsályktunartillögu þessa efnis í því skyni að hér yrði samþykkt fyrir miðnótt þingsályktun sem gerði kleift að leggja tillögu stjórnlagaráðs og spurningar um tiltekin álitaefni fyrir þjóðina samfara forsetakosningum.

Það er kominn heill mánuður síðan þetta var og kannski einhverjum dögum betur. Þá ber svo við eins og ég segi að það hellast hér inn 11 eða 12 tillögur. Ég vil spyrja hv. þingmann af því tilefni, og ég skil ekki af hverju menn hafa ekki undirbúið tillöguflutning sinn betur — í 3. gr. laga nr. 91/2010, um þjóðaratkvæðagreiðslur, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, segir skýrt „að í þingsályktun skuli að fenginni umsögn landskjörstjórnar kveðið á um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar o.s.frv.“

Það er alveg ljóst að landskjörstjórn hefur ekki fjallað um neitt af þeim spurningum sem hv. þingmenn hafa verið að leggja hér fram í dag. (Forseti hringir.) Þess vegna hljóta menn að spyrja hvort mönnum sé alvara með þessu eða hvort þetta er bara leikaraskapur.