140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umræðan sem fram hefur farið til þessa um breytingar á stjórnarskránni hefur fyrst og fremst snúist um aðferðafræði, hvernig eigi að breyta henni. Það hefur verið verkefnið sem stjórnarmeirihlutinn hefur einbeitt sér að síðustu þrjú árin.

Hv. þingmaður ræddi viðbótarspurningar í þá skoðanakönnun sem stjórnarmeirihlutinn vill láta gera í júní sumar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvaða áherslumál hann vildi sjá breytt í stjórnarskrá. Það kemur reyndar ekki almennilega fram í þeim spurningum sem menn vilja leggja fyrir en það er alveg ljóst að fyrst og fremst er gengið út frá því að svarað sé spurningum er snúa að tillögum stjórnlagaráðs. Það kann hins vegar vel að vera að stór hluti þjóðarinnar vilji gera breytingar á stjórnarskránni en ekki á þann hátt, en telji engu að síður að breyta þurfi tilteknum þáttum. Svo kann líka að vera að einhverjir vilji engu breyta og ég hefði haldið að eðlilegt væri að sá vilji yrði líka kallaður fram í skoðanakönnun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða þætti, áhersluþætti, í stjórnarskránni hann telji brýnast að breyta, og í annan stað um skoðun hans á jöfnun atkvæða, af því að hér hefur verið rætt um það. Það er ein af þeim spurningum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til að spurt verði um. Það er nokkuð athyglisvert að í niðurstöðu þjóðfundarins kom fram sú afstaða að jafna atkvæðisréttinn en stjórnlagaráðið komst ekki að þeirri niðurstöðu heldur taldi að menn ættu að halda sig við það sem er í núgildandi stjórnarskrá. Engu að síður kýs meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að spyrja sérstaklega um það.