140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist að hv. þingmaður sé jafnvel þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að líta á breytingar á stjórnarskránni út frá stjórnarskránni sjálfri; hverju þurfi ekki að breyta í henni, hvað hafi reynst okkur vel og hægt sé að hafa eins og það er, hvað það er sem við höfum kannski ekki passað nógu vel upp á og þurfum að gæta að, og hverju þurfi að bæta við. Hv. þingmaður nefndi til dæmis auðlindamálið. Það er ekkert launungarmál að það hefur verið á stefnuskrá að minnsta kosti þeirra stóru stjórnmálaflokka sem hafa verið á þingi um alllangt skeið. Það stendur auðvitað upp á okkur að ljúka þeirri vinnu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að skynsamlegt sé fyrir alþingismenn að ræða þessa efnisþætti, takast á um þá eftir atvikum og eftir að slík umræða hefur átt sér stað innan sala Alþingis, af því að það er hlutverk þingsins, sé kominn tími til þess að leita til þjóðarinnar og kalla eftir samtali við hana um það sem rétt væri að breyta.