140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er innlegg virðulegs þingmanns Lúðvíks Geirssonar í umræðu um stjórnarskrármál. Þetta er hans innlegg í þetta mikilvæga mál. (Gripið fram í.) Hann telur upp hverjir eru á mælendaskrá í umræðu um stjórnarskipunarmál, kvartar yfir því að efnisleg umræða eigi sér stað, kveinar yfir því að örfáir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi tekið til máls, þar á meðal fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og formaður flokksins. Þetta er auðvitað hneisa, að mati þingmannsins er hneisa að þingmenn á Alþingi telji það hlutverk sitt að tala um stjórnarskipunarmál. Þessi málflutningur er svo fullkomlega óboðlegur og hlægilegur að þingmaðurinn ætti að skammast sín.

Hverjar eru hugmyndir hans í þessu máli? Hvað vill hann leggja á borð? (PHB: Engar.) Það liggur engan veginn fyrir hverju hv. þingmaður vill breyta efnislega í stjórnarskránni. Það liggur ekki einu sinni fyrir hvort það plagg sem hér er undir muni koma óbreytt til þjóðarinnar að loknum næsta vetri eða ekki. Hér er enginn maður í stjórnarmeirihlutanum sem vill beinlínis bera ábyrgð á því. Ég sá hæstv. forsætisráðherra bregða fyrir í hliðarsal. Hún hefur ekki einu sinni tekið til máls, manneskja sem hefur talið þetta mál grundvallarmál sitt í marga áratugi. (VigH: Rétt.) Hún hefur ekki haldið eina einustu ræðu um þetta mál. Hún fjallar um það á flokksráðsfundum og úti í bæ, en hefur hún komið hingað og lagt málið fyrir þingið? Nei, það hefur hún ekki gert.

Ég vildi óska þess, virðulegi forseti, að þingmenn væru tilbúnir að tala efnislega um þetta mál, en það er engin von til þess að hv. þm. Lúðvík Geirsson muni gera það.