140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:07]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósköp hrædd um að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum ekki enn náð því hér í dag að tala jafnlengi og formaður Samfylkingarinnar gerði í ræðu þegar hún talaði í rúmar tíu klukkustundir, einu sinni, ein, um eitt mál. (Gripið fram í.) Ein ræða, tíu klukkutímar. Hér hafa örfáir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tekið til máls til að ræða þetta mikilvæga mál og þingmaðurinn kvartar yfir því. Ég kvarta yfir því að hann skuli ekki taka þátt í efnislegri umræðu um málið og ég verð fyrir mjög miklum vonbrigðum með það dugleysi hans að vilja ekki gera það.

Síðan verð ég að segja alveg eins og er að aðalvandamálið við þetta mál er að hér er enginn sem vill í raun og veru bera ábyrgð á málinu. (Gripið fram í: Ekki frekar en í Hafnarfirði.) Það á sem sagt að fara í atkvæðagreiðslu um efni málsins — já, það er alveg rétt að þetta minnir mjög á kosningar í Hafnarfirði. Þar bar heldur enginn ábyrgð á þeirri atkvæðagreiðslu sem þar fór fram. Slík vinnubrögð verða ekki neinu máli til framdráttar. Það sem við sjálfstæðismenn erum að fara fram á — það er reyndar óheyrilegur misskilningur, virðulegi forseti, ef hv. þingmaður heldur að þessi tillaga snúist ekki um stjórnarskrána. Er það sem sagt skoðun þingmannsins að þetta sé bara skoðanakönnun, þetta sé bara ekkert annað? Auðvitað á þetta að snúast um þau grundvallaratriði hvað á að vera í tillögu meiri hlutans en það gerir það ekki. Enginn ber ábyrgð á neinu, enginn vill halda þessu máli hjá sér og bera ábyrgð á því. Svo kveina menn og kvarta eins og krakkar yfir því að hér séu haldnar örfáar ræður. Þetta er algjörlega fráleitur málflutningur.