140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir ræðu hans. Ýmis orð hafa fallið úr þessum ræðustóli í þessari viku eins og klækjastjórnmál og annað slíkt. Ég sé ekki betur en að þingmenn Samfylkingarinnar hafi beitt klækjastjórnmálum í dag til þess að beina kastljósinu frá heilsulausri ríkisstjórn. Hér er ekkert málþóf og við þurfum ekki að samþykkja þetta mál fyrir miðnætti í kvöld því að fyrir þinginu liggur frumvarp frá mér, sem farið hefur í gegnum 1. umr., um að stytta þriggja mánaða tímamarkið, að fara megi fram þjóðaratkvæðagreiðsla þótt það séu minna en þrír mánuðir fram að almennum kosningum. Þetta er spuninn og hann er keyrður í botn bara til þess að reyna að koma óorði aðallega á einn stjórnmálaflokk, Sjálfstæðisflokkinn, og svo er Framsóknarflokknum blandað inn í það annað slagið og sagt að við í stjórnarandstöðunni stöndum í málþófi.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á að málið er vanbúið. Þess vegna ætti ríkisstjórnin að sjálfsögðu að vera búin að setja mál mitt varðandi styttri tímamörk í þjóðaratkvæðagreiðslu á dagskrá í stað þess að vera að þenja sig úr ræðustól um að hér sé eitthvert málþóf í gangi, en þetta eru vinnubrögðin sem þessi ríkisstjórn hefur tamið sér.

Því langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hverjum er til hagsbóta sá málflutningur Samfylkingarinnar í dag sem fullyrðir úr ræðustóli og í fjölmiðlum að Sjálfstæðisflokkurinn stundi hér málþóf? Hvers vegna er ekki frumvarp mitt dregið upp og málið látið fara í sinn farveg í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og því gefinn sá tími sem (Forseti hringir.) það þarf til þess að verða almennilegt þingmál?