140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einkenni á málþófi að menn endurtaka sig, menn hiksta og tala í hring. (Gripið fram í: Já. …) Ég bið menn um að nefna mér einhvern stað í ræðum mínum þar sem ég hef ekki komið með nýja hluti. (Gripið fram í.) Það er ekki alltaf sama ræðan og ef hv. þingmaður fullyrðir það skal hann sanna það. Ég kann ekki við svona aðdróttanir.

Það sem hv. þingmaður sagði varðandi mál sitt getur verið að það yrði mjög góð lausn fyrir ríkisstjórnina að samþykkja það. Hins vegar held ég að á því séu sálfræðilegir annmarkar. (EyH: Sálfræðilegir?) Já, sálfræðilegir, ég sagði það. Bara vegna sálfræðilegrar stöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart einstökum persónum munu menn ekki geta með neinu móti staðið að slíku frumvarpi. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Góður, Pétur.) Ég ætla nú að vera mjög varkár en ég held að það sé sálfræðilegur annmarki á þessu (Gripið fram í: Já.) þó að þetta mál sé hentugt fyrir ríkisstjórnina. En hún getur að sjálfsögðu flutt nýtt frumvarp (Gripið fram í: Gott mál.) og gert „kópí/peist“ af frumvarpi hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og flutt það hér.

Varðandi fullyrðingar um málþóf vísa ég þeim fullkomlega til föðurhúsanna. Ég tel að vandamálið í þessu máli sé að ríkisstjórnin og hv. nefnd sem um það fjallaði hafi ekki haft nógu góða verkstjórn. Málið kom allt of seint fram, það átti fyrir löngu að vera komið til umræðu og menn áttu að geta tekið hér rólega og góða umræðu í dagsbirtu um sjálfa stjórnarskrána. Ég tel að menn eigi að sýna henni þá virðingu.