140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá þingmanninum, sú verklausa, heilsulausa ríkisstjórn sem við Íslendingar sitjum uppi með ber sálfræðilega annmarka í brjósti gagnvart flutningsmanni þessa frumvarps, sem þó gæti leyst þetta mál strax í kvöld. (Gripið fram í.) Frumvarpið sem ég lagði fram hefur þegar farið í gegnum 1. umr. og er nú í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd milli 1. og 2. umr. Það hefur því forskot í þeim málflutningi sem hafa þyrfti, verði það gert að máli ríkisstjórnarinnar, því að ef ríkisstjórnin ætlar að fara að gera nýtt frumvarp í sínu nafni upp úr mínu frumvarpi þarf hún að fara með það í gegnum 1. umr. Þeirri umræðu er lokið um frumvarp mitt um styttra tímamark í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Málið er því komið í pattstöðu, þess vegna skilur maður óróa Samfylkingarinnar í dag. Samfylkingin veit af frumvarpi mínu um styttra tímamark í þjóðaratkvæðagreiðslu en getur ekki hugsað sér að nota það eða að það fái hér framgang vegna þess hver flutningsmaðurinn er. Það er alveg frábær staða sem við erum í í dag og upplýsir svo sannarlega um hversu mikla sálfræðilega erfiðleika þessi ríkisstjórn er að kljást við.

Fram kom í máli hv. þingmanns áðan að einhver stjórnarliði hefði sagt í andsvari að færi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og segir í fyrsta tillögulið, og frumvarp stjórnlagaráðs yrði fellt yrði það samt notað. Er ekki skynsamlegra að taka þær góðu tillögur sem eru í skýrslunni og máta þær við núgildandi stjórnarskrá í stað þess að leggja til að komið verði með algjörlega nýtt plagg sem heita á hin nýja íslenska stjórnarskrá?