140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákveðið sjónarmið að menn noti núverandi stjórnarskrá og breyti henni, kannski hægt og rólega í áföngum, kannski einum kafla á fimm ára fresti, setja mannréttindakaflann fremst, taka síðan ríkisvaldið, stjórnsýsluna o.s.frv. Það eru mörg ágæt atriði sem koma fram í tillögum stjórnlagaráðs. Það gæti verið vinnulag sem við gætum rætt.

Hver einasti þingmaður hefur heimild til að leggja fram frumvarp, líka til stjórnarlagabreytinga, og hver einasti þingmaður stjórnarliðsins hefði getað lagt fram akkúrat þá hugmynd stjórnlagaráðs sem frumvarp til stjórnarlagabreytinga hvenær sem er, á hverjum einasta degi, hann gæti gert það í kvöld. Það hafa menn ekki gert. Hvers vegna ekki, frú forseti? Vegna þess að það er svo mikið af veilum í þessu máli, það er svo margt sem þarf að laga. Ég hef nefnt það áður — ég ætla ekki að fara að endurtaka mig, þá er það málþóf — að vísað er í lög í stjórnarskránni. Þar segir til dæmis, með leyfi forseta:

„Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Það þýðir að Alþingi þarf að gera eitthvað til þess að stjórnarskráin verði virk.

Það er að finna á 86 stöðum í tillögum stjórnlagaráðs, á 86 stöðum er vísað í að Alþingi geri eitthvað. Ef Alþingi gerir ekki neitt er ákvæðið ekki virkt. Það er miklu betra að segja: Börn eiga rétt á umönnun. Svo mætti bæta við: og framfærslu. Þá liggur það fyrir, þá er það ákveðin undirstaða. Við þurfum að ræða stjórnarskrána með þeim hætti. (Gripið fram í.)