140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Valgeiri Skagfjörð fyrir þessa yfirlýsingu. Þá vitum við það að þingmenn Hreyfingarinnar hafa ekki gert neitt samkomulag við ríkisstjórnina um að styðja hana í erfiðum málum gegn því að þetta frumvarp fái hraðferð og verði sent til þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Það er mjög gott. Það hefur hv. þingmaður upplýst okkur um.

Hv. þingmaður vill að þjóðin samþykki þessa stjórnarskrá og að hún verði samþykkt óbreytt. Ég benti rétt áðan á veilu í henni. Á 86 stöðum í þessari nýju stjórnarskrá sem hugmyndin er um að verði stjórnarskrá Íslands, er gert ráð fyrir því að Alþingi geri eitthvað. Þar er verið að framselja stjórnarskrárvaldið yfir til Alþingis og svo sjáum við í auknum mæli að lagasetningarvaldið er framselt til embættismanna með reglugerðum. Það er náttúrlega stórkostleg veiking á stjórnarskránni. Vill hv. þingmaður að þetta sé svona, að við búum til einhverja stjórnarskrá, sem er stórlega veikt vegna þess að í 86 greinum er gert ráð fyrir aðkomu Alþingis til að þær greinar verði virkar? Er ekki miklu betra að stjórnarskráin sé klár og kristaltær og að dómstólar geti dæmt eftir því sem þar stendur en þurfi ekki að bíða eftir einhverri lagasetningu frá Alþingi sem getur verið svona og svona?

Mér finnst þetta vera mjög alvarleg veila og er tiltölulega einfalt að laga það. Ég sendi breytingartillögu til umsagnar í nefnd, það er í fyrsta skipti sem þingmaður skrifar umsögn til nefndar, ég hef hvergi nokkurn tíma séð það, en ég neyddist til þess að gera það af því að umræðan var svo stutt. Ég skrifaði 38 síðna umsögn og þar eru breytingartillögur við flestar þessar greinar.