140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil undir þessum lið fá að beina spurningu til forseta um að hún upplýsi mig og þingheim um hvað hún áætli að langur tími sé eftir af þessari umræðu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að við áttum okkur á hvað forseti áætli að umræðan muni standa lengi vegna þess að eins og öllum er ljóst gengur sú þingsályktunartillaga sem hér er rædd út á það að samhliða forsetakosningum í sumar fari fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Takist ekki að afgreiða þingsályktunartillöguna fyrir miðnætti mun hún detta dauð niður.

Það getur vel að það sé markmið einhverra þingmanna en ég vil fá að beina því til forseta að hún upplýsi mig hversu langan tíma hún áætli að umræðan muni standa vegna þess að ljóst má vera að atkvæðagreiðslan um þingsályktunartillöguna og þær fjölmörgu breytingartillögur sem við hana eru munu væntanlega standa vel á þriðja tíma og því eru að verða síðustu forvöð að geta boðað til þeirrar atkvæðagreiðslu. Ljóst má vera að boða þarf þingmenn í húsið með einhverjum fyrirvara til að hún geti farið fram og ekki síður (Forseti hringir.) til að þingsályktunin geti orðið að veruleika fyrir miðnætti eins og ég tel lýðræðislegur meiri hluti Alþingis vilji sjá.