140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef ekkert út á fundarstjórn forseta að setja en til að auðvelda forseta fundarstjórn ætla ég að láta þess getið að ég á eftir að nýta þann tíma sem þingsköpin heimila mér í þessari umræðu. Það eru að minnsta kosti 20 mínútur og ég hyggst nýta mér þær og ég ætlast til þess að sá þinglegi réttur minn sé virtur.

Síðan vil ég gera athugasemd við orðfæri hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, að hér sé til einhver lýðræðislegur meiri hluti. Ég er lýðræðislega kjörin á þing jafnt sem aðrir þingmenn sem hér sitja og þeir varamenn sem hér sitja í dag eru það einnig þannig að hér eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar. Hér er enginn lýðræðislegur meiri hluti, frú forseti.