140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Talandi um tímahrak þá er auðvitað rétt að geta þess að Alþingi og sú nefnd sem við hv. þm. Lúðvík Geirsson eigum sæti í, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fékk tillögur stjórnlagaráðs til meðferðar í byrjun október. Hálfu ári síðar er ákveðið að leggja þær óbreyttar — ég endurtek óbreyttar — í atkvæði þjóðarinnar á einhverri tiltekinni dagsetningu sem er eins og ég segi ekki náttúrulögmál heldur ákvörðun einhvers fólks.

Þegar nefndin og þar á meðal þingflokkur hv. þm. Lúðvíks Geirssonar hafði haft þetta mál í sínum höndum í sex mánuði var eins og menn rönkuðu við sér og segðu: Við erum að falla á tíma. Er það kannski það sem veldur því tímahraki sem hér er um að ræða? Ef ætlunin var allan tímann að leggja tillögurnar óbreyttar í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, af hverju var ekki hafist handa við það í október?