140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get hvorki né vil svara hv. þingmanni öðruvísi en svo að við ráðum ekki í hvaða röð spurningar eru bornar fram. Þingsköpin gera það að verkum að við berum fram breytingartillögur, atkvæðagreiðslur fara fram um þær og í lokin eru greidd atkvæði um tillöguna í heild svo breytta. Við gætum hugsanlega haft áhuga á að hafa þetta með einhverjum öðrum hætti en við ráðum því ekki, þetta verður einfaldlega þannig.

Í ljósi þess finnst okkur heiðarlegast og eðlilegast að leggja spilin algjörlega á borðið eins og við gerum í nefndaráliti okkar. Við leggjumst gegn tillögunni í heild, við leggjumst gegn því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla 30. júní. Við höfum ekkert farið í neinar felur með það, við höfum verið skýr í þeirri framsetningu. En verði af atkvæðagreiðslunni viljum við reyna að leggja gott til málanna og þess vegna leggjum við fram þessar breytingartillögur sem við teljum að yrðu til bóta ef þær væru samþykktar.