140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kynni sem sagt svo að fara, samkvæmt orðum hv. þingmanns, að einhver ein tillaga Sjálfstæðisflokksins yrði sú fyrsta sem hér yrði upp borin. (Gripið fram í.) Þá kynni svo að fara að hún yrði samþykkt. Þá er nú allur viðtengingarhátturinn löngu horfinn úr tilveru Sjálfstæðisflokksins og hv. þingmanns. Auðvitað hefði verið hreinlegast hjá hv. þingmanni og fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sem eru sérfræðingar í fundarsköpum eins og við vitum, að flytja hér frávísunartillögu.

Hv. þingmaður sagði að það væri ekkert náttúrulögmál að þjóðaratkvæðagreiðslan ætti að fara fram 30. júní nk. Nei, það er rétt, það var ákvörðun Alþingis með ályktun 22. febrúar að stefna skyldi að því að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram þann dag. Það var ekkert „ákvörðun einhvers fólks“, eins og hv. þingmaður sagði.

En allan þann tíma höfum við vitað að hverju stefndi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var falið sérstaklega að undirbúa spurningar til þjóðaratkvæðis á þeim degi. Á síðasta degi hellast inn tillögur frá Sjálfstæðisflokknum, og ég spyr: Er það mjög trúverðugt, herra forseti? Ég spyr hinn löglærða kollega minn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Hvernig finnst honum það ríma við 3. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, þar sem segir að í þingsályktun — sem við erum að fara að greiða atkvæði um, vona ég — skuli að fenginni umsögn landskjörstjórnar kveða á um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar sem lögð er fyrir kjósendur.

Hefur hv. þingmaður og samþingmenn hans fengið umsögn (Forseti hringir.) landskjörstjórnar um þær spurningar sem þeir hafa hér lagt fyrir og ef ekki, (Forseti hringir.) hvað segir það þá um gildi þess að leggja þær spurningar fram á síðustu stundu?