140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt, það væri auðvitað best ef hægt væri að fá umsögn landskjörstjórnar um þessar spurningar, það væri auðvitað langbest, (Gripið fram í.) það væri ótvírætt langbest. Það væri hægt ef menn væru ekki búnir að festa sig í einhverri meinloku um tímasetningar í þessu sambandi, ef það væri málið sjálft og málsmeðferðin sem ætti að ráða ferðinni en ekki fixeraðar tímasetningar sem eiga sér fyrst og fremst rót í pólitískum yfirlýsingum ákveðinna leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Ef það væri málið sjálft sem réði ferðinni mundum við auðvitað gera það þannig.

Ég vil hins vegar nefna það við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að kannist hún ekki við að ég hafi haldið fram þeim sjónarmiðum og þeim spurningum sem koma fram í spurningum okkar Ólafar Nordal, hlýtur hún að minnsta kosti að geta leitað til annarra í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fengið staðfestingu á því að þessi sjónarmið … (ÁI: Ég hef aldrei ýjað að því, hv. þingmaður.) Það hefur legið fyrir um margra vikna skeið að við hefðum áhuga á að … (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Er það þannig að sumir þingmenn mega kalla linnulaust fram í en ekki aðrir? Hér var forseti á forsetastóli áðan sem var með miklar skammir í garð þingmanna sem kölluðu fram í.

Burt séð frá því þá hefur það auðvitað legið lengi fyrir að við hefðum áhuga á því að spyrja þessara spurninga. Ég hef með engu móti dulið samnefndarmenn mína í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þess að við kynnum að flytja breytingartillögur af þessu tagi, (Gripið fram í.) nákvæmlega varðandi þau efnisatriði sem hér er um að ræða.