140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Orð hér um hræðslu Sjálfstæðisflokksins við álit þjóðarinnar hafa greinilega hitt auman blett. Hv. þingmaður kann að vera saklaus af málþófi en Sjálfstæðisflokkurinn er það sannarlega ekki í þessu máli. Flokkurinn hefur skipulagt á þriðja tug ræðna um þetta litla mál og hálft annað hundrað andsvara sem ekkert tilefni er til vegna þess að flokkurinn er að reyna að tefja tímann fram yfir miðnættið til að beita tæknihindrunum til þess að málið nái ekki fram að ganga.

Það er mikilvægt að minni hlutinn hafi rétt til að beita sér til að tefja framgang mála. Þeim rétti hefur alla jafna verið beitt þegar minni hlutinn telur að afleiðingar samþykktar séu mjög alvarlegar og óafturkræfar og einkum snúist að málþófi um löggjöf. En í hvaða tilgangi er málþófi beitt hér? Staðan er einfaldlega sú að meiri hluti þjóðkjörinna fulltrúa á Alþingi vill leita ráðgefandi álits þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokkurinn er því ósammála og hann ætlar nú að beita tæknihindrunum til að koma í veg fyrir að þjóðkjörinn, lýðræðislega kjörinn meiri hluti á Alþingi geti leitað þess ráðgefandi álits sem hann vill. Það tel ég að marki nokkuð ný spor í málþófi og hljóti í raun og veru að opna fyrir jafnvel enn alvarlegri hluti í samskiptum minni hluta og meiri hluta til að mynda eins og þann að minni hlutar fari að telja sér heimilt að koma til dæmis í veg fyrir samþykkt fjárlaga á Alþingi og gera með þeim hætti ríkissjóði og ríkinu ófært að starfa eins og gerst hefur í sumum löndum. Ég held að um leið og réttur minni hlutans til að beita ofbeldi með þessum hætti sé mikilvægur þá sé líka mikilvægt að beita honum af hófsemi. Fram að þessu hafa formenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu (Forseti hringir.) litið svo á að þeir þyrftu að nýta þennan rétt af varúð vegna þess að þeir yrðu sjálfir líka í meiri hluta sem þjóðkjörnir fulltrúar (Forseti hringir.) á stundum og mundu vilja að minni hlutinn virti sjónarmið sín.