140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir harla ósmekklegt að líkja umræðu um stjórnarskrána við kappleik og er ég þó þekkt af því að vera keppnismanneskja í kappleikjum. En að líkja umræðu um stjórnarskrána við kappleik og að einn flokkur sé 1:0 yfir er bara að mínu mati, virðulegur forseti, frekar ósmekklegt.

Ég hef sinnt störfum mínum á þingi frá því að ég var kjörin árið 2007 af heilindum og samviskusemi bæði í nefndum og í þingsal og ég get ekki tekið því, virðulegur forseti, að hér sé talað til mín þannig að að störfum mínum sé bæði skömm og annað í þeim dúr. Ég get ekki sætt mig við slíkt. Þess vegna ætla ég ekki að svara hv. þingmanni frekar.